6.7.2006 | 15:16
Fótboltabulla og tree-hugger með fimmtudagsfiðring
Þeir sem þekkja mig munu ekki trúa þessu, allra síst Hulda, en ég held ég sé búin að fatta fótbolta. Horfði að vísu ekki á leikinn í fyrradag, sem var víst eitthvað æðislega æðislegur, en horfði á seinni hálfleikinn af Frakkland-Portúgal í gær og hafði bara gaman að sko. Nema ég nottla hélt með portúgal vegna kárahnjúkatengsla minna við landið og þeir töpuðu - en sem betur fer hélt ég ekki það mikið með þeim að tapið skemmdi fyrir mér leikinn. Svo var ég reyndar líka orðin svo þreytt á vælinu í Ronaldo að ég var eiginelga bara hætt að halda með þeim. En nú hefur sem sagt alveg nýr heimur opnast fyrir mér...eða svona nokkurn veginn...því nú ætla ég viljandi að horfa á úrslitaleikinn. Spurði m.a.s. strax í dag hvenar hann væri - var væntanlega ein af svona 3 manneskjum á landinu sem vissi það ekki fyrir. En þessu hefði ég aldrei trúað upp á sjálfa mig...ef hugarfarsbreytingin gagnvart fótbolta heldur áfram á þessum hraða í svona viku breytist ég í svona fulla breska fótboltabullu sem lemur alla sem halda ekki með sama liði...hmm, ætti þá kannski að velja mér lið til að halda með fyrst - einhverjar hugmyndir?
En það er fleira skrítið að gerast í hausnum á mér þessa dagana. Fór út að reykja áðan og sá eitthvað svona skorkvikindi vera að skríða um á pallinum - og ég steig á það og drap það bara svona mér til skemmtunar. Ekkert óeðlilegt við það svo sem. Nema hvað að svo fékk ég bara massasamviskubit og vorkenndi grey dýrinu að þurfa að hafa álpast upp á pallinn akkúrat á meðan ég var úti. Hefði það komið hálftíma fyrr eða seinna ætti það kannski 2 mánuði eftir af lífi sínu, en nei, ég skemmdi möguleika þess á því bara af því ég hafði ekkert betra að gera. Er þetta ekki orðið soldið sick? Ég meina ég er ekki einu sinni grænmetisæta. Vona bara að þetta fari ekki að færast í aukana líka og ég fái samviskubit í hvert sinn sem ég þarf að drepa könguló eða trjákepp heima, því það er ekkert mjög sjaldan.
En nú er svo kominn fimmtudagur og fimmtudagsfiðringurinn er að sjálfsögðu á sínum stað og nú er bara að ákveða hvort það er breakbeat eða wulfgang í kvöld - hmm...þarf að hugsa þetta. Ætli það velti ekki líka soldið á því með hverjum ég fer þar sem ég held að fáir sem ég þekki séu opnir fyrir báðum möguleikunum - og margir reyndar hvorugum....en ég finn eitthvað út úr þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2006 | 14:05
Kannski maður endi bara í helvíti eftir allt saman....
Slasaðist í hringdyrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2006 | 11:18
Return of the Sunna
Komin aftur til baka frá Hróarskeldu í heilu lagi...ef maður telur ekki húðflyksurnar sem hrynja reglulega af nefi mínu og öxlum vegna sólbruna sem sjálfstæða parta. Það er auðvitað bara púrahamingja í gangi með að vera komin til baka í vinnuna, skil ekki hvernig ég gat sleppt því að mæta á skrifstofuna 6 heila daga í röð, var bara komin með fráhvarfseinkenni...sem lýstu sér í taumlausri gleði og brosi allan hringinn.
Það var alveg geðveikt gaman úti og ég man eftir næstum því allri ferðinni sem verður held ég bara að teljast gott. Var samt ekki alveg eins dugleg að fara á tónleika og ég ætlaði mér og finnst súrast að hafa misst af Primal Scream en annars er mér eiginlega bara alveg skííítsama. Hitti aftur á móti Tiga og hann er bara alveg jafn sætur in person og ég hélt. Og eins furðulegt og mér eiginlega finnst það þá fannst mér Roger Waters-tónleikarnir bestir - eða ég allavega fór í mesta fílinginn á þeim. Ætlaði eiginlega ekkert mikið að fara fyrst af því ég var svo nýbúin að sjá hann hérna heima og það var jú fullt annað í gangi á sama tíma en svo var hann bara miklu betri úti - eða upplifun mín allavega miklu magnaðri...en það var eflaust að einhverju leiti út af þessu með B-svæðið þegar ég fór hérna heima.
Sló svo öll fyrri met í verauppiísófamaraþonum eftir að ég kom aftur til kaupmannahafnar því þar lá ég frá svona 1 eftir hádegi á mánudegi þangað til 9 í gærmorgun. Kom bara við gólfið til að fara tvisvar á klósettið, einu sinni í langþráða sturtu og einu sinni til dyra að taka á móti pizzu. Verð eiginlega að segja að þetta voru mjöööög ljúfir 20 tímar og ég horfði á alla fyrstu seríuna af futurama - djöfull eru það ógeðslega fyndnir þættir. Held ég þurfi að fara aftur á næsta ári og horfa þá á aðra seríu og svo þriðju á þarnæsta ári. En þá verð ég líka að vera að koma af hróarskeldu því undir öðrum kringumstæðum myndi ég væntanlega vilja eyða degi í Köben í eitthvað annað en teiknimyndagláp. Já heyrðu, ég hlýt að hafa komið eitthvað við gólfið líka til að skipta um disk í dvd-spilaranum...damn, caught myself in my own lie Get samt ekki neitað því að það var ótrúlega gott að koma í mat til ömmu í gær og fá fyrstu máltíðina í viku sem var ekki samloka, hamborgari eða pizza.
Myndi lofa að skella inn myndum fljótlega en eftir að hafa haft þvílíkt fyrir því að sækja myndavélina mína áður en ég fór út þá tók ég bara 2 myndir. Önnur er af hundi í lest og hin er held ég af hluta af andlitinu á Billiam...báðar teknar á leiðinni frá flugvellinum og heim til hans. Ég er venjulega svo góð í að sofa í flugvélum, sofna næstum undantekningalaust fyrir flugtak og vakna oftast ekki fyrr en eftir lendingu. En eitthvað var mér að bregðast bogalistin í þetta skiptið því ég bara sofnaði ekki. Og hvað gera Íslendingar þá? Jú þeir drekka í staðinn. Ég hef nú aldrei verið þessi týpa sem fer á flugvélafyllerí og alveg virkilega þoli ekki fullt fólk í flugvélum sem kann ekki að haga sér og ælir yfir allt og alla en núna skil ég þetta betur sko. Ég var reyndar voða stillt og ældi ekki neitt, hélt bara mitt einkapartí með ipodinum og dansaði eins og fáviti í sætinu - held samt ég hafi ekki truflað neinn, rámar samt í að fólk hafi horft smá á mig eins ég væri kannski soldið spes á leiðinni út úr vélinni og á meðan ég dansaði mig í gegnum Kaastrup. Svo varð ég víst Billiam eitthvað smá til skammar í lestinni (var víst að tala frekar hátt um að nú væri ég hætt að borða þangað til eftir hátíðina því ég vildi ekki fyrir mitt litla líf gera neitt meira en að pissa í fallegu kamrana þar - fyrir utan bara að láta eins og fullur fáviti í lest) en ég man ekkert eftir því svo það gerðist ekki.
En hver veit, kannski ég skelli inn þessum tveim myndum á morgun...hundurinn var geðveikt sætur og þar að auki oní tösku. En hvað er svo málið með það að ég hafi aldrei heyrt um fyrstu seríu af lífi britney og kevins og enn síður séð þátt? Hvar kemst maður í þetta? (jebbs...nú er ég opinberlega búin að játa að ég horfi á sumt af raunveruleikaviðbjóðnum sem ég rakka reglulega niður og hef bara baman að....en hver gerir það svo sem ekki?
Spears vill í sjónvarpið á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.6.2006 | 16:48
Gott að vera kærulaus
Eins og ég er nú búin að vera staðráðin í að fara að spara og svona vegna alveg dularfullt slakrar fjárhagsstöðu og hárra visareikninga þá bara ákvað ég að skella mér á Hróarskeldu. Ég meina fyrst ég fæ miðann gefins væri ég annars að tapa 1400 dönskum krónum og það getur varla flokkast undir góðan sparnað. Til þess að spara þennan 1400 kall þurfti ég að vísu að eyða 40.000 en ég er alveg viss um að það er til einhver hagfræðiformúla sem sýnir fram á mikinn hagnað af þessu. Allavega andlegan hagnað því það verður svo gaman!
Er ég nokkuð alveg snar? er ekki hvort eð er í tísku að steypa sér í skuldir upp fyrir haus þessa dagana? Nú fæ ég líka að hitta kærastann minn, hann Tiga, sem á lag (og drop dead gorgeous mynd) hérna á vinstri kantinum þar sem hann ætlar að spila fyrir gesti og gangandi á laugardaginn. Þarf að leggjast yfir line-upið og spilleplanet í kvöld...vúhúúú!
Skemmtileg tilviljun að á meðan öllum þessum pælingum stendur er ég einmitt í Roskilde '03 bolnum mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.6.2006 | 14:03
Hjálp! Hróarskelda og peningar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.6.2006 | 15:49
Föstudagsgleðin að fara með mig
búin að redda esjunni....nú getiði séð hvað ég var kát og glöð þarna....er í alvörunni að reyna að brosa á flestum myndunum. Svo er ég líka búin að setja inn þessa geðveikt professional og vel gerðu mynd í hausinn....bara svona af því ég var að tölvunördast þá er alveg eins sniðugt að nota þetta ekki satt?
Fattaði einhvers staðar frekar snemma á leiðinni heim að bensínmælirinn var kominn niður fyrir núllið. Meikaði það nú samt inn í mosó en ákvað þar að ég tímdi ekki að taka bensín fyrr en ég kæmi á orkuna og merkilegt nokk meikaði ég það alla leið heim til mömmu. Verður spennandi að sjá hvort ég meiki það líka út í Orku...annars væri það nottla alveg eftir mér að gleyma að stoppa þar og keyra bara framhjá og verða svo bensínlaus
En allavega...sturtutími...svo bara PARTÍTÍMI!!!! Góða helgi fólk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2006 | 10:35
Myndir og framkvæmdir og vampírur og föstudagur
Yoyoyoy....Gleðilegan föstudag!
Næstum enginn mættur í vinnuna, ákváðu greinilega allir nema ég og einhverjar 5 aðrar hræður að taka sér langa helgi. Held einhvern veginn að ég verði ekki lengi hérna í dag.
Ég er loksins búin að dæla inn myndunum frá Þýskalandi sem Inga Birna var eitthvað að heimta hérna fyrir langa löngu síðan. Svo setti ég líka inn myndir frá því rétt eftir að ég kom heim frá Þýskalandi og fór að djamma með Heiðu og Mæju. Við virðumst bara hafa tekið myndir í leigubílnum en það lítur allavega út fyrir að það hafi verið stuð í honum. Í sama albúmi eru svo myndir úr vinnuskvísupottapartíinu sem ég hef nú eitthvað minnst á áður. Svo afmælið mitt, voða fáar myndir þaðan reyndar, sandra var öllu öflugri á sína vél. Og svo þessi rosalega Esjuganga...að vísu er vitlaust albúm þar inni, gerði óvart eitt með bara einni mynd og tók það svo með mér í staðinn fyrir rétt albúm...redda því bara þegar ég fer heim til mömmu eftir vinnu. En þetta er sem sagt allt á gömlu myndasíðunni minni, nenni bara engan veginn að setja inn eina og eina mynd í einu hérna. Er samt ekki alveg búin að fatta hvernig ég get breytt þessum template-um í picasa, kíkti eitthvað á þetta og þau eru greinilega fyrir miklu meira advanced nörda en template-in í photoshop, ég gat breytt þeim bara no probs. Kannski ef mér leiðist einhvern tíma geðveikt mikið finn ég út úr þessu. Finnst þetta ekki alveg nógu kúl svona.
Major framkvæmdir í gangi á baðinu heima....plöturnar í veggnum í kringum sturtuna voru bara fúnar í gegn, og nú eru þær bara farnar og þessar nýju ekki komnar upp ennþá, svo nú fer ég í sturtu heima hjá mömmu.
Svo er ég með eitthvað djöfulsins skordýrabit á hálsinum...held ég hafi fengið það á leiðinni heim í gær, byrjaði að klæja bara rétt eftir að ég kom heim. Ég hélt það ættu eiginlega ekki að vera nein svona bítuskordýr hérna....nema nottla þetta hafi verið eintennt vampíra, það er auðvitað ekki hægt að útiloka þann möguleika. Sri Lanka moskítókremið hefur verið að virka fínt en morgunskammturinn er hættur að virka og ég var svo vitlaus að ég tók það ekki með mér, svo núna er ég búin að klóra svo mikið á síðasta hálftíma að ég er bara orðin heví aum líka. Eeeen...eins og þetta hljómar nú sjálfsvorkunnarlega, þá vorkenni ég mér ekki neitt því það er föstudagur og ég ætla bara að hætta snemma og það er kúl að vera með hálft vampírubit! Áfram ég!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2006 | 13:27
Erfðarannsóknir og upplýsingar
Sumarið 2001 var ég stödd í Hollandi í heimsókn hjá vini mínum. Á þessum tíma var Íslensk Erfðagreining og kortlegging gena íslensku þjóðarinnar mikið í umræðunni og svo skemmtilega vildi til að á meðan á heimsókninni stóð var sýnd heimildarmynd um þetta mál í hollenska sjónvarpinu. Ef ég man rétt var aðallega rætt við fólk sem var á móti þessari umfangsmiklu upplýsingaöflun og hafði áhyggjur af því hverjir fengju aðgang að þessum upplýsingum og svo framvegis og svo framvegis. Ég varð frekar pirruð á þessu fólki sem vildi setja stein í götu læknisfræðilegra framfara út af einhverju ofsóknarbrjálæði. Hvað ætti Íslensk Erfðagreining eða nokkur annar aðili í þessari rannsóknarvinnu svo sem að græða á því að fara ekki vel með allar upplýsingar? Af hverju ekki bara að treysta þeim?
Já ég sé það núna þegar ég skrifa þetta fimm árum seinna að þetta var barnalegur hugsunarháttur en hvað átti ferðalangurinn og optimistinn ég, sem var nýbúin að vera á flakki á hættulegum stöðum og búa með hættulegum götustrákum og (næstum) aldrei fengið að sjá neitt nema góðar hliðar á fólkinu sem ég kynntist, að halda?
Fyrir um það bil mánuði síðan var ég svo stödd í heimsókn hjá mömmu. Síminn hringdi, mamma svaraði, varð smá skrítin á svipinn og rétti mér símann enda komið frekar langt síðan það var hringt til hennar seinast og spurt eftir mér. Maðurinn kynnti sig og sagðist vera að hringja frá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna. Svo bað hann mig að taka þátt í einhverri rannsókn, mamma mín væri að taka þátt í henni og hefði skrifað mig niður sem aðstandanda sem mæti hafa samband við og biðja að taka einnig þátt í rannsókninni. Ég sagði reyndar nei vegna þess að þegar maður vinnur á Grundartanga er bara of mikið vesen að mæta á skrifstofutíma í blóðprufu. Eftir símtalið sagði ég mömmu að ég nennti ekkert að taka þátt í þessari rannsókn sem hún var í. Hún sagði bara HA? Hvaða rannsókn? Þá kom á daginn að hún var ekkert búin að samþykkja að taka þátt í þessari rannsókn sjálf var sjálf að hugsa málið og var ekki búin að gefa samþykki sitt og enn síður gefa lista af aðstandendum sem ætti að hafa samband við. Nokkrum dögum seinna fékk bróðir minn sama símtalið og var sagt nákvæmlega það sama.
Fyrir nokkrum dögum fékk ég svo bréf heim, í umslagi merktu Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna.
.....Ástæðan fyrir því að ég sendi þér þetta bréf er sú að ég hef verið beðinn að kynna fyrir þér rannsókn .... á erfðum nikótínfíknar. Sjálfur er eg undirritaður ekki aðili að þessari rannsókn
......
Samkvæmt upplýsingum sem þú veittir við þátttöku þína í rannsókn á erfðum mígrenis, þá hefur þú notað tóbak um lengri eða skemmri tíma og/eða ert skyldur einstaklingi í þeirri rannsókn sem slíkt á við um. ....
Hafa þá bara allir sem ákveða að gera rannsókn á erfðum einhvers sjúkdóms óbeinan aðgang að þeim svörum sem ég gef í öðrum rannsóknum? Ég bjóst m.a.s. frekar við því að sá sem gerði mígrenisrannsóknina fyrir nokkrum árum hefði ekki aðgang að þeim upplýsingum lengur hver hefði svarað hverju, hélt að þegar búið væri að vinna upplýsingarnar væri öllum tengingum við persónur eytt. Ég er greinilega ennþá svona saklaus og barnaleg í hugsun. Eftir þessi tvö atvik hef ég öllu meiri skilning á áhyggjum fólksins í heimildamyndinni og segi að minnsta kosti fyrir mitt leiti að ég mun líklega ekki taka þátt í fleiri rannsóknum sem krefjast þess að maður treysti rannsóknaraðilum fyrir einhverjum upplýsingum um sjálfan sig. Mér finnst það bara einhvern veginn ekki mjög traustvekjandi að það sé logið að manni um þátttöku fjölskldumeðlima í rannsóknum og svörum af spurningalistum annarra rannsókna útvarpað í nafni vísindanna. Eða er ég bara að vera paranoid?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.6.2006 | 13:29
Kínverjar á tunglinu, lýðræði vs. einræði og persónuleg vitundarvakning
Jesús Pétur og Santa María! Hvaða voðalega pissukeppni er þetta hjá þessum þjóðarleiðtogum alltaf hreint? Hvað ætla þeir að græða á þessum tunglferðum? Og so sorry, en mér finnst bara ekkert merkilegt að vera þriðja þjóðin til að senda mann út í geim. Ef ég er ekki orðin bara snargeðveik og farin að ímynda mér hluti, þá var ég í Kína fyrir 2 árum eða svo og þá sýndist mér nú vera alveg fullt af þarfari málaflokkum fyrir þá að setja þennan efnahagslega styrk sinn í. Já ég segi það og skrifa, heimurinn væri betri ef ég væri einræðisherra yfir honum öllum.
Og talandi um einræðisherra....Það var vinnuskvísupottapartí fyrir 2 helgum síðan og eftir nokkra bjóra og nokkur kampavínsglös var ég búin að finna skoðanasystur í pottinum sem var sem sagt sammála mér í því að þetta lýðræði sem við búum við og verið er að reyna að fá allan heiminn til að taka upp sé ekki nógu sniðugt kerfi af hinum ýmsustu ástæðum, og að menntað einræði væri bara miklu sniðugri kostur. Við erum að vísu ekki búnar að finna neina praktíska útfærslu á ýmsum smáatriðum eins og hvernig skuli velja góða einræðisherra eða hvernig eigi að passa upp á að þeir verði ekki bara tjúllaðir af öllum völdunum með tímanum og hætti að vera góðir einræðisherrar. En við vorum komnar með þá bráðabirgðalausn að sjá bara um þetta sjálfar, eða hún mátti vera einræðisherra og ég sérstakur ráðgjafi. Eitt af okkar fyrstu verkum átti að vera að hækka bensínverð um ein 400% (en bæta að sjálfsögðu um leið almenningssamgangnakerfið verulega) þar sem svona "smáhækkanir" eins og hafa orðið nýlega virðast ekkert draga úr notkun einkabílsins.
Þetta eru auðvitað engar stórfréttir, bara pólitískt fyllerísbull (með miklu sannleiksívafi þó) í heitum potti - en einhver áhrif hafði þetta þó á mig því síðan þá er ég bara ekki búin að hreyfa bílinn nema ég sé að fara eitthvað sem er engan vegin í göngufjarlægð (nema reyndar einu sinni þegar ég var að fara að kaupa áfengi í massavís - ein 10 kg eða svo, 1,5 km í burtu og var á hraðferð, þá keyrði ég). Á þessum tíma er ég búin að fara þrisvar labbandi í bæinn, fjórum sinnum út á videoleigu og tvisvar í ljós. Allt ferðir sem ég hefði annars farið keyrandi-bara af því maður er örlítið fljótari að því. Þó að þessar stuttu gönguferðir mínar geri kannski ekki gæfumuninn fyrir ósonlagið eða nærri uppþornaðar olíulindir heimsins, og jafnvel ekki mikið fyrir mína persónulega bensíneyðslu, þá er það góð tilfinning að vera að fara eftir því sjálfur sem manni finnst og predikar að allir eigi að gera.
Kínverjar ætla að senda mann til tunglsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2006 | 15:39
Áfram Ísland! og ég! og 19. júní!
Er það ekki skemmtileg tilviljun að Aung San Suu Kyi eigi afmæli sama dag og ég? OK, reyndar skemmtilegri tilviljun að hún eigi afmæli á kvenréttindadaginn, en maður má nú vera soldið sjálfhverfur á afmælinu sínu ekki satt? En hvað er annars málið með það að það sé ekki búið að ná henni úr þessu stofufangelsi? Einhvern veginn náðum við nú Bobby Fischer úr fangelsi og ég held að Aung San Suu Kyi eigi enn síður heima í fangelsi en hann. Og pæliði í því ef þetta væri svona hérna heima, Geir H. Haarde myndi bara stinga Steingrími J í steininn fyrir...tja...nú veit ég ekki....að vera of sannfærandi ræðumaður með "rangar" hugmyndir...nei höfum þetta frekar Össur þar sem hann á líka afmæli í dag. En svona er víst bara lífið....ljótt og ósanngjarnt.
Og þar er einmitt komin ástæðan fyrir því að það er óhollt fyrir sálina að hugsa bara um heimsmálin og allt fólkið sem á bágt, og stundum á maður bara að hugsa um sjálfan sig og hafa gaman að lífinu. Sem ég einmitt gerði á föstudaginn í þessari líka fínu pakkainnheimtu. Ég var komin með tónlistina og partígleðina í botn löngu áður en fyrstu gestir mættu og mig hefði bara aldrei grunað að ég gæti skemmt mér svona vel í partíi með sjálfri mér. Skemmti mér nú samt ennþá betur eftir að gestirnir komu og ég fékk gjafir. Ég ætla sem sagt aldrei að þroskast...orðin 24 og finnst ennþá alveg óendanlega gaman að fá pakka. Laugardagurinn fór eiginlega bara í rólegheit og að jafna sig og að horfa á allavega hluta úr þessum handboltaleik. Var með einhverjar hugmyndir um bæjarferð, langaði að sjá eitthvað af þessu liði sem var að spila þarna um kvöldið, en svo bara lagði ég mig óvart í staðinn, vaknaði svo smá og fór svo bara að sofa. Bara mjög ljúfur þjóðhátíðardagur að mínu mati.
Þegar ég vaknaði í gær var mitt fyrsta verk að láta plata mig með upp á Esju. Ég er víst Reykvíkingur og þeir eiga víst að ganga á Esjuna og mér hefur lengi fundist ég smá lúði að hafa aldrei farið þarna upp. Þegar ég var búin að labba í um það bil 5 mínútur, áður en ég varð dauðþreytt og handónýt, mundi ég allt í einu hvað mér finnst óendanlega leiðinlegt að labba upp á fjöll. Þá kom barnið aftur upp í mér, þetta sama og finnst svo gaman að fá pakka, nema núna tók ég soldið annan pól í hæðina og fór að haga mér eins og 4 ára krakki í frekjukasti. Fór í fýlu, skammaði pabba og Sindra fyrir að leyfa mér að koma með, vældi um að mig langaði heim og fleira í þeim dúr - og ekki batnaði það þegar mér var orðið ííískalt líka. Mér til varnar vil ég taka fram að ég gerði mér grein fyrir þessari óskemmtilegu hegðun minni allan tímann og sagði oft við pabba að hann ætti bara að fara á undan og ekki láta mig skemma ferðina með svona stælum. En hann og Sindri eru báðir svo þolinmóðir, þessar elskur, og þeim fannst greinilega alveg ótækt að ég leggði í svona hrikalega svaðilför án þess að komast á toppinn að þeir lölluðu þetta á mínum hraða og létu eins og þeir tækju ekki eftir því að ég var leiðinleg og í fýlu. Á einhvern stórdularfullan hátt finnst mér núna í minningunni eins og það hafi verið gaman - og samt var þetta bara í gær. Ætli þessi skrítna minnisbrenglun sé ástæðan fyrir að ég læt alltaf plata mig í svona aftur og aftur? Var líka í feitri fýlu í einhverri fjallgöngu sem við fórum í síðasta sumar (og gott ef það var ekki m.a.s. að mínu frumkvæði) en samt er hún líka skemmtileg í endurminningunni.
Mætti svo með köku í vinnuna morgun (er ekki annars ennþá morgunn kl. hálf 11?) svo allir komust að því að ég á afmæli og þess vegna sögðu allir til hamingju með afmælið við mig, og aftur breyttist ég í glaða 7 ára krakkann sem finnst alveg óendanlega gaman að eiga afmæli. Ætla bara að halda áfram að einbeita mér að því stórmerkilega verkefni að eiga afmæli það sem eftir er dags....síjúsleiters.
Aung San Suu Kyi eyðir afmælisdeginum ein í stofufangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)