Færsluflokkur: Tónlist

Flensan, Roger Waters og Belle and Sebastian

Það sökkar að vera ég þessa dagana. Tókst að verða veik um leið og ég kom heim frá þýskalandi svo ég byrjaði seinustu viku á að vera heima í hóstakasti og að drukkna í eigin svita, sem er alltaf svo sjarmerandi. Reyndar vorkenndi ég sjálfri mér ekki mikið því þó mér liði alveg ömurlega hugsaði ég með mér "þetta er þó skömminni skárra en vinnan." Svo ákvað ég að skella mér til læknis á þriðjudeginum því ég var bara verri en á mánudeginum og man nú bara aldrei eftir að hafa verið almennilega flensuveik í meira en einn dag svo mig grunti að ég væri komin með bronkítis þar sem það var líka helvíti vont að hósta og seinast þegar ég fékk soleiðis var ég hundskömmuð af lækninum fyrir að hafa ekki komið fyrr. Eiginlega var ég alveg búin að greina mig með bronkítis og hefði bara byrjað að taka lyfin mín síðan seinast (þar sem ég gleymi alltaf að klára svona skammta átti ég plenty plenty eftir) en mig vantaði eitt lyf svo ég ákvað að það væri kannski alveg eins sniðugt að fá sjúkdómsgreiningu frá fagaðila. En ég átti auðvitað engan heimilislækni þar sem efstaleitisheilsugæslan er búin að sparka mér út og ég ekkert búin að spá í að fá mér nýjan þar sem ég fer hvort eð er aldrei til læknis. Svo það var læknavaktin fyrir mig....bíða klukkutíma og borga 1750 téll. Ég sagði doksa sjúkdómsgreininguna mína, hún hlustaði mig og sagði að ég væri með flensu og ætti að fara heim að bryðja panódíl. Eins og mér finnst nú vanalega gaman að hafa rétt fyrir mér var ég alveg hæstánægð með að hafa sjúkdómsgreint sjálfa mig vitlaust því ég var búin að ákveða að ef ég væri komin með bronkítis aftur yrði ég bara að hætta að reykja. En þar sem þetta var bara flensa má ég halda áfram að reykja eins og mig lystir...jibbí! En ég var samt áfram veik og ekki orðin vinnufær fyrr en á föstudag. Og þá varð fólk m.a.s. hálfhrætt við mig þegar ég tók hóstaköst. Og hvað haldiði svo...þrátt fyrir 12 tíma svefn þrjár nætur í röð og minimal reykingar (ein á sunnudag, ein á mánudag, engin í gær) er ég ennþá að hræða fólk með hóstaköstum og það sem verra er, þessi hósti lætur mig fá fáránlegan hausverk. Þannig að basically er ég orðin svona aumingi sem lætur einhverja skitna flensu há sér í a.m.k. rúma viku.

Svo eru það tónleikar....ákvað í gær á  meðan ég horfði á bubba í sjónvarpinu og sá auglýsingu um Roger Waters tónleikana að mig langar á þá. Vissi til dæmis ekki fyrir að hann ætlaði að taka dark side of the moon í heild sinni og nú finnst mér það sko alveg 8450 króna virði að fara og sjá kallinn. Vandamálið er aftur á móti að ég held ekki að ég eigi marga vini sem eru sama sinnis og ekki vill maður fara einn á tónleika...hmm...what to do? Kannski ég bara kaupi miða og mæti svo snemma og eignist vini í röðinni....er löngu orðin snillingur í að kynnast fólki í klósettröðum á skemmtistöðum svo ég ætti kannski bara að útvíkka þá sérfræðikunnáttu aðeins. Þarf allavega að taka ákvörðun um þetta sem fyrst þar sem ég hef á tilfinningunni að það verði bráðum uppselt á b-svæði líka.

Það yrði nú að teljast nokkuð öflugt ef mér tækist að eyða 13.270 krónum í tónleikamiða á einum degi sem verður raunin ef ég ákveð að kaupa miða á Roger Waters því á morgun verður byrjað að selja miða á Belle and Sebastian og það eru sko tónleikar sem ég ætla ekki að missa af. Held einhvern veginn að það verði auðveldara að finna félagsskap á þá þar sem það kostar "ekki nema" 5000.

Svo auglýsi ég eftir ríkum vinum með brennandi áhuga á tónleikum...óþolandi að standa í þessu sama stappi alltaf hreint.


Prófessor vísindamaður Sunns!

Það var þá aldrei að maður gerði ekki eina merka uppgötvun í vinnunni. Ok, kannski ekki mjög vinnutengda, en merkilega samt...og ég er í vinnunni.

Eitthvað var föstudagurinn farinn að ná tökum á mér og ég fann á einhverju öðru bloggi link á leik sem á að þjálfa viðbrögð. Og maður er víst algjör snillingur í þessu ef maður nær 18 sekúndum. Fyrstu tilraunir enduðu nú bara í 5 sekúndum og undir, en svo "dó" ég nokkrum sinnum í 16 sekúndum og skreið loks upp í 17,9. Svo snéri ég mér aftur að því skemmtilega verkefni að reyna að komast að því hvað einhverjir ógeðslegir hlutir sem ég veit ekki einu sinni hvað gera kosta (vinnan sem sagt) og skellti Red Hot Chilli Peppers í eyrun. Þegar ég var svo búin að gefast upp á að reyna að komast til botns í því hvort óskiljanlegt orð 1 þýddi það sama og óskiljanlegt orð 2 og að þau væru þar með á sama verði fór ég aftur í leikinn. Nú náði ég 23 sekúndum tvisvar í röð. Aftur að vinna, og svo aftur í leikinn...17 sekúndur þrisvar í röð. Heyrðu, svo setti ég tjillipiprana aftur í eyrun og náði 25 sekúndum tvisvar í röð. Þ.a. vísindaleg niðurstaða mín er sú að Stadium Arcadium sé plata hinna góðu viðbragða. Readymade er 25 sekúndna lagið.

Nú á ég eftir að vera í vinnunni í svona 40 mínútur í viðbót og er að spá í að testa hvað CocoRosie og Tiga gera fyrir viðbrögðin.


CocoRosie tónleikarnir...

...voru ææææði. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað það mættu margir, Nasa var bara stútfullt. Ástæðan fyrir því að það kom mér svona á óvart var að flest fólk sem ég hef talað við hafði bara aldrei heyrt um neitt CocoRosie og miðinn var nú ekkert ódýr og fólk er oft ekki tilbúið að borga 3.650 krónur fyrir að hlusta á tónlist sem það þekkir ekki. Ég bjóst m.a.s. alveg eins við því að þurfa sleppa því að fara eða fara ein en svo sem betur fer var hún Sandra til í að prófa eitthvað nýtt. En hún sér nú varla eftir því.

Ég get nú ekki sagt að ég hafi þekkt þær neitt vel sjálf, hafði heyrt nokkur lagabrot fyrir löngu síðan og ekkert meira. En þegar byrjað var að auglýsa tónleikana þeirra hérna dreif ég mig bara að kaupa La Maison de Mon Reve, vissi alveg að ég myndi fíla þetta út frá því litla sem ég hafði heyrt. Fór svo í Skífuna í fyrradag og ætlaði að kaupa seinni diskinn, Noah's Ark, en hann var bara uppseldur. Svo það hafa greinilega fleiri en ég ákveðið að gefa þessu séns og kynnast tónlistinni aðeins fyrir tónleika.

Stemningin á Nasa var svo alveg frábær. Maður dettur svo inn í tónlistina þeirra. Ég dansaði m.a.s. soldið á staðnum þó að allir aðrir í kring um mig stæðu grafkyrrir....var bara alveg sama þótt fólki í kringum mig þætti ég kannski skrítin - og öllum var líka alveg sama þó ég væri eitthvað aðeins að dilla mér. Ég hefði nú reyndar frekar viljað hafa svona kaffihústónleikastemningu, fylla bara gólfið af litlum borðum og stólum þar sem þetta er bara þannig tónlist en þá hefðu auðvitað ekki komist næstum því jafn margir og miðinn auðvitað orðið þeim mun dýrari. Svo fannst mér pinku fúlt að þær tóku ekki uppáhaldslagið mitt, Terrible Angels sem er einmitt hægt að hlusta á hérna til vinstri.

Svo fannst mér ekki verra hvað það var mikið af fólki í skrítnum fötum-sá eina í einhverjum fjólubláum taupoka (sem gæti svo sem alveg eins hafa verið eitthvað voða fínt Gucci eða Versace - hvað veit ég um þessa fínu tísku) og aðra sem leit út fyrir að vera svona stytta af gamaldags spiladós sem hefði lifnað við. Gaman að sjá að það eru ekki allir steyptir í þetta sama mót - maður hittir allt of mikið af eins fólki í eins fötum með eins klippingu. Ég er alls ekki ein af þessum öðruvísi að þessu leiti en mikið er ég fegin að fullt af fólki er það.

Þannig allt í allt, æðislegir tónleikar, sé sko ekki eftir krónu af 3.650 kallinum. Ætla að muna þetta og vera duglegri að fara á tónleika svona yfir höfuð. Svo er ég líka ánægð með alla hina sem mættu því oft finnst mér Íslendingar vera svo miklir plebbar sem eru hræddir við nýjungar eins og skrítna tónlist.


Me luuuuvs him....

Dreif mig í Skífuna eftir vinnu í gær og keypti diskinn með nýja kærastanum mínum, er svo búin að vera að tapa mér í gleðinni bæði á leiðinni í vinnuna og svo í vinnunni dansandi í stólnum fyrir framan tölvuna. Henti inn lagi með honum hérna á vinstri kantinn, og svo einu með CocoRosie líka, svona ef þið viljið tóndæmi. Ætla svo að vera duvleg að setja inn lög sem bara ég er að hlusta á...eða svona, stuff sem ég dett niður á og er ekki spilað í útvarpinu oft á dag.

En svona án gríns hversu sætur er þessi gaur? Já ég veit - ég er farin að tala eins og 13 ára gelgja, en samt...hann er bara of sætur! Komst því miður að því eftir að ég keypti diskinn að hann á víst konu. Las af einhverjum ástæðum "thanks"-listann í coverinu og þar er hann með einhverjar corny ástarjátningar til einhverrar Tiölu...pottþétt algjör belja.Ullandi En eins og einhver vinnufélaginn benti mér á þá eru skilnaðir alveg blessunarlega algengir (já ég er sem sagt búin að tala um það í vinnunni líka hvað hann er sætur og að konan hans sé belja...kannski kominn tími á að endurskoða persónuleika minn?) 

Til að sýna ykkur alvarleika þessa ástands tók ég mynd af tölvuskjánum mínum og nánasta umhverfi. Framan á coverinu er sem sagt þessi ótrúlega fallega mynd af honum og ég stillti hulstrinu upp þarna til að geta horft á hann á meðan ég vinn. Ástandið er sem sagt ennþá alvarlegra en hérna í denn þegar ég ætlaði að sækja um sem skúringakona hjá Damon Albarn.

En endilega hlustiði á lagið líka, þá heyriði hvað kærastinn minn er hæfileikaríkur. Þetta er einmitt lagið sem var í gangi þegar ég labbaði inn í búðina og fór að áreita afgreiðslustelpurnar. Enjoy. Ég ætla halda áfram að einbeita mér að því að vera vangefin. 


Vúhúú mánudagur!!!

Er með sjálfa mig í svona experimental sálfræðimeðferð...ef ég segi nógu oft við sjálfa mig að mánudagar séu æði þá kannski verða þeir það. Er reyndar ekki mjög bjartsýn á árangurinn en það getur ekki sakað að reyna.

Annars er þessi mánudagur betri en margir...tveir dagar í Cocorosie tónleika og 8 dagar í Þýskalandsferð. Rammstein, hier komme ich!

Frændsystkinagrillveislan á föstudaginn lukkaðist svona líka vel. Góður matur og ljúffeng tequilaflaska spiluðu þar stór hlutverk. Svo kynntist ég nýjum frænda. Eða ekki nýjum kannski, alveg mun eldri en ég, en við könnumst hvorugt við að hafa hist í að minnsta kosti 10 ár, jafnvel 15, en nú þekkjumst við allavega í sjón svo við getum heilsað hvort öðru ef við mætumst á götu. Mér tókst svo að drepast áður en farið var í bæinn en var vakin með dúndurkaffibolla eftir að fólk var búið að skemmta sér nóg við að vefja mig inn í klósettpappír og taka myndir af mér og var svo manna hressust inni á Hressó eftir tvo kaffibolla í viðbót. Svo var "eftirpartí" á skrifstofu í austurstræti en ástandið var orðið þannig bara á leiðinni upp í lyftunni að fíflagangurinn þar verður bara svona fjölskylduleyndarmál og eftirpartíið varð eitthvað stutt í annan endann.  Þá gerði ég tilraun til að keppa í hafnarsundi en áskoruninni var ekki tekið, kannski sem betur fer. Takk fyrir kvöldið bara.Svalur

Kannast svo einhver við hljómsveitina Tiga? Var í Smáralindinni í gær og inni í einhverri búð heyrði ég þessa líka æðislegu tónlist. Fór og spurði afgreiðslustelpuna hvað þetta væri og hún sagði Tiga og spurði svona glöð og smá hissa hvort ég fílaði þetta því margir hafa víst kvartað undan þessu. Ég fór nottla beinustu leið í skífuna og ætlaði að fá að hlusta aðeins meira og svo væntanlega kaupa. En diskurinn var ekki til í Smáralind en gaurinn hringdi niður á laugaveg og ég lét taka þetta eina eintak sem var til þar frá. Svo gleymdi ég auðvitað að fara og kaupa hann í gær svo það er stefnan eftir vinnu. Gaman að rekast svona á nýja tónlist...þarf kannski bara að vera duglegri að hanga í búðum og hlusta...eða ekki, þar sem búðaráp gerir mig alltaf örlítið þunglynda.

Uppfært: Googlaði Tiga og ekki nóg með að þetta sé geðveik tónlist heldur er þetta ekki hljómsveit heldur einhver óóógó sætur gaur...held barasta að hann megi vera kærastinn minn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband