Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.8.2006 | 16:19
Mótmælendur, helgin og ný byrjun
Oh þessir mótmælendur eru svo miklir bjánar. Í fyrsta lagi, hvað halda þeir að þeir geti stoppað úr þessu? Og í öðru lagi eru þetta allt svo miklar bavíanaaðgerðir að þeir koma óorði á náttúrverndarsinna og mótmælendur yfir höfuð svo maður fer ósjálfrátt að tengja slík áhugamál við greindarskort sem er þó engan veginn réttlátt.
Í öðrum fréttum er það helst að ég borðaði geðveikt góðan mat hjá Tótu á föstudagskvöldið og sofnaði svo í partíinu sem fylgdi og vaknaði ekki fyrr en Tóta og Nico voru búin að fara í annað partí og bæinn og voru komin heim til að reka mig úr rúminu sínu. Eftir það tókst mér ekki að sofna aftur svo ég horfði á barnatímann á RÚV á laugardagsmorgun í nýja fína sjónvarpinu mínu, en það gamla lagaðist einmitt af sjálfu sér sama dag og ég fékk það nýja svo nú er þetta gamla 28" bara til sölu eða eitthvað. Svo fór ég í Smáralindina eiginlega um leið og hún opnaði því mér leiddist og ég kann greinilega ekki að vera vakandi á laugardagsmorgnum. Þar settist ég niður á café adesso eða hvað það nú heitir með tölvuna mína og skrifaði ógeðslega langa og skemmtilega færslu um bæði föstudagskvöldið og sjónvarpið en ég var svo mikið fífl að mér tókst að láta tölvuna verða alveg batteríslausa svona sekúndu áður en ég ýtti á "vista og birta"-takkann svo hún hvarf. Af hverju ég var ekki löngu búin að ýta á "vista sem uppkast"-takkann veit ég ekki...ætli ég sé ekki bara fífl. Þar sem ég nenni ekki að skrifa sömu hlutina tvisvar er bara stutta og ófyndna útgáfan af föstudagskvöldinu og sjónvarpinu látin duga.
Við mamma skelltum okkur svo í bíltúr á Laugarvatn í smá heimsókn til Gogga frænda og co rétt eftir hádegi sem varð svo ekkert smá heimsókn. Eftir mikið spjall, kökuát og leik við hinn tæplega eins árs og ótrúlega krúttlega Brimi fórum við að spila Catan - landnemar, sem við mamma vorum að prófa í fyrsta skipti og vá hvað þetta er skemmtilegt spil. Svo var okkur bara boðið í kvöldmat (útigrillaður lax...mmmmm) og eftir mat var tekið annað spil og við mamma komum í bæinn um miðnætti. Þetta spil verður án efa næsta fjárfesting mín og þá verður sko enginn sem kemur í heimsókn óhultur...ég mun neyða fólk til að læra þetta og spila. Og þetta finnst mér þrátt fyrir að hafa eiginlega bara skitið á mig í bæði skiptin sem við spiluðum.
Þá er kannski komið að því að útskýra síðustu færslu aðeins. Síðasta prófið er í höfn og útskrift úr verkfræðideild í október verður að raunveruleika. Í tilefni af því ákvað ég að ég vil ekki vera verkfræðingur. Hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessum leiðindafræðum og hef aldrei haft og hvernig ég hef lifað þetta af í 5 ár án þess að lenda í neinu alvarlegu þunglyndi er ofar mínum skilningi. En um daginn fattaði ég loksins að þótt ég hafi asnast til að skrá mig í verkfræði í háskólanum fyrir 5 árum síðan þarf ég ekki að líða fyrir þá slæmu ákvörðun allt mitt líf - er langt frá því að vera of gömul til að breyta til. Og mikið er ég fegin að ég fattaði þetta núna en ekki eftir 20 ár. Þó að verkfræðingar haldi öðru fram, þá trúi ég því að það eigi að vera gaman í vinnunni og veit að það er til fólk sem finnst gaman í vinnunni svo ég bara ætla að stefna að því og fara í eitthvað nýtt og spennandi nám eftir ár. Í millitíðinni ætla ég að skella mér á sjó og veiða fisk sem er eitthvað sem mig langaði alltaf mikið til að gera þegar ég var unglingur en gerði aldrei. Og nei, ég er ekki að djóka eins og langflestir sem ég hef sagt frá þessu halda. Ætli ég sé ekki bara svona klikkuð.
Mótmælendur tóku yfir verkfræðistofu á Reyðarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.7.2006 | 14:07
Huldudóttir fædd!
Jebb, Huldus er víst loksins hætt að vera ólétt, fæddi litla stelpu bara rétt áðan, og ég verð nú eiginlega að viðurkenna það að ég er öll mun uppveðraðri og spenntari yfir þessu en ég bjóst við...er eiginlega pinkulítið að tapa mér og langar helst bara að bruna í bæinn og skoða krílið. En það má víst ekki strax er það? Ég kann ekkert á svona dót maður, og er svo símalaus í þokkabót svo ef ég er að fá einhver upplýsinga-sms þá fæ ég þau ekki.
En bottomlænið er:
Til hamingju elsku Huldus minn!
25.7.2006 | 13:18
Nostalgía dauðans
Neibb, nýstárlega leiðin mín til að vakna á morgnana virkar ekki. Reyndi hana í morgun með því að fara að sofa kl. 5 og ætlaði að vakna hálf 8, og viti menn, það klikkaði allverulega!
Nive kom til landsins á laugardaginn, er hérna með kærastanum sínum og mömmum þeirra beggja og í gærkveldi hittumst við niðri í bæ og fengum okkur einn öl, rifjuðum upp gamla tíma og ræddum lífið og tilveruna. Svo fengum við okkur kannski einn bjór í viðbót og jafnvel einn til. Svo bara allt í einu var verið að loka og við vorum sko ekki búnar að tala, svo við röltum heim til mín og héldum áfram að tala þar.
Ég hef ekki hitt hana síðan 2002 þegar þessi mynd var tekin og auðvitað var geðveikt gaman að sjá hana. Samt fannst mér ekki eins og ég væri að hitta vinkonu mína í fyrsta skipti í 4 ár, um leið og við hittumst var bara eins og það væri ekkert eðlilegra í heiminum en að sitja á Brennslunni með Nive, og vá hvað ekkert hefur breyst þó að allt hafi breyst, skiljiði?
Þegar við komum heim til mín setti ég Drvie með Bic Runga í, disk sem við Nive rauluðum reglulega lag fyrir lag úti í Noregi og svo Californication sem við hlustuðum á svona grilljón sinnum á rölti okkar um Osló eftir að við uppgötvuðum að við gleymdum báðar vegabréfunum okkar og restin af hópnum var búin að stinga okkur af og fara til London. Árbækur og myndir voru grafnar upp og reyndar komumst við ekkert í gegnum árbækurnar, festumst í myndunum sem er ágætt því þá eigum við hitt eftir.
Vá þvílíka nostalgían og upprifjunin! Og vá hvað maður á að rifja svona upp gamlar minningar stundum, annars kannski týnast þær. Nive rifjaði upp fullt af skemmtilegum hlutum sem ég var búin að gleyma þangað til hún sagði þá og öfugt. Við töluðum líka um ekki svo skemmtilegu mómentin og það komu m.a.s. fram áður óþekktar upplýsingar.
Í dag er ég svo auðvitað dauðþreytt og get ekki neitað því að það er örlítil stærðarinnar þynnka í gangi líka því heima fann ég líka nokkra bjóra og varð svo auðvitað að gefa túristanum að smakka tópas úr flösku við góðar undirtektir og ekki gat ég skilið sjálfa mig útundan. Samt söng ég hástöfum með Bubba alla leið í vinnuna og er búin að vera syngjandi og flautandi í vinnunni líka og vá hvað það er gaman að vera til bara - myndi þakka fyrir frábært kvöld ef Nive bara kynni íslensku og vissi að ég ætti bloggsíðu.
21.6.2006 | 13:27
Erfðarannsóknir og upplýsingar
Sumarið 2001 var ég stödd í Hollandi í heimsókn hjá vini mínum. Á þessum tíma var Íslensk Erfðagreining og kortlegging gena íslensku þjóðarinnar mikið í umræðunni og svo skemmtilega vildi til að á meðan á heimsókninni stóð var sýnd heimildarmynd um þetta mál í hollenska sjónvarpinu. Ef ég man rétt var aðallega rætt við fólk sem var á móti þessari umfangsmiklu upplýsingaöflun og hafði áhyggjur af því hverjir fengju aðgang að þessum upplýsingum og svo framvegis og svo framvegis. Ég varð frekar pirruð á þessu fólki sem vildi setja stein í götu læknisfræðilegra framfara út af einhverju ofsóknarbrjálæði. Hvað ætti Íslensk Erfðagreining eða nokkur annar aðili í þessari rannsóknarvinnu svo sem að græða á því að fara ekki vel með allar upplýsingar? Af hverju ekki bara að treysta þeim?
Já ég sé það núna þegar ég skrifa þetta fimm árum seinna að þetta var barnalegur hugsunarháttur en hvað átti ferðalangurinn og optimistinn ég, sem var nýbúin að vera á flakki á hættulegum stöðum og búa með hættulegum götustrákum og (næstum) aldrei fengið að sjá neitt nema góðar hliðar á fólkinu sem ég kynntist, að halda?
Fyrir um það bil mánuði síðan var ég svo stödd í heimsókn hjá mömmu. Síminn hringdi, mamma svaraði, varð smá skrítin á svipinn og rétti mér símann enda komið frekar langt síðan það var hringt til hennar seinast og spurt eftir mér. Maðurinn kynnti sig og sagðist vera að hringja frá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna. Svo bað hann mig að taka þátt í einhverri rannsókn, mamma mín væri að taka þátt í henni og hefði skrifað mig niður sem aðstandanda sem mæti hafa samband við og biðja að taka einnig þátt í rannsókninni. Ég sagði reyndar nei vegna þess að þegar maður vinnur á Grundartanga er bara of mikið vesen að mæta á skrifstofutíma í blóðprufu. Eftir símtalið sagði ég mömmu að ég nennti ekkert að taka þátt í þessari rannsókn sem hún var í. Hún sagði bara HA? Hvaða rannsókn? Þá kom á daginn að hún var ekkert búin að samþykkja að taka þátt í þessari rannsókn sjálf var sjálf að hugsa málið og var ekki búin að gefa samþykki sitt og enn síður gefa lista af aðstandendum sem ætti að hafa samband við. Nokkrum dögum seinna fékk bróðir minn sama símtalið og var sagt nákvæmlega það sama.
Fyrir nokkrum dögum fékk ég svo bréf heim, í umslagi merktu Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna.
.....Ástæðan fyrir því að ég sendi þér þetta bréf er sú að ég hef verið beðinn að kynna fyrir þér rannsókn .... á erfðum nikótínfíknar. Sjálfur er eg undirritaður ekki aðili að þessari rannsókn
......
Samkvæmt upplýsingum sem þú veittir við þátttöku þína í rannsókn á erfðum mígrenis, þá hefur þú notað tóbak um lengri eða skemmri tíma og/eða ert skyldur einstaklingi í þeirri rannsókn sem slíkt á við um. ....
Hafa þá bara allir sem ákveða að gera rannsókn á erfðum einhvers sjúkdóms óbeinan aðgang að þeim svörum sem ég gef í öðrum rannsóknum? Ég bjóst m.a.s. frekar við því að sá sem gerði mígrenisrannsóknina fyrir nokkrum árum hefði ekki aðgang að þeim upplýsingum lengur hver hefði svarað hverju, hélt að þegar búið væri að vinna upplýsingarnar væri öllum tengingum við persónur eytt. Ég er greinilega ennþá svona saklaus og barnaleg í hugsun. Eftir þessi tvö atvik hef ég öllu meiri skilning á áhyggjum fólksins í heimildamyndinni og segi að minnsta kosti fyrir mitt leiti að ég mun líklega ekki taka þátt í fleiri rannsóknum sem krefjast þess að maður treysti rannsóknaraðilum fyrir einhverjum upplýsingum um sjálfan sig. Mér finnst það bara einhvern veginn ekki mjög traustvekjandi að það sé logið að manni um þátttöku fjölskldumeðlima í rannsóknum og svörum af spurningalistum annarra rannsókna útvarpað í nafni vísindanna. Eða er ég bara að vera paranoid?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2006 | 11:17
Vúhúú mánudagur!!!
Er með sjálfa mig í svona experimental sálfræðimeðferð...ef ég segi nógu oft við sjálfa mig að mánudagar séu æði þá kannski verða þeir það. Er reyndar ekki mjög bjartsýn á árangurinn en það getur ekki sakað að reyna.
Annars er þessi mánudagur betri en margir...tveir dagar í Cocorosie tónleika og 8 dagar í Þýskalandsferð. Rammstein, hier komme ich!
Frændsystkinagrillveislan á föstudaginn lukkaðist svona líka vel. Góður matur og ljúffeng tequilaflaska spiluðu þar stór hlutverk. Svo kynntist ég nýjum frænda. Eða ekki nýjum kannski, alveg mun eldri en ég, en við könnumst hvorugt við að hafa hist í að minnsta kosti 10 ár, jafnvel 15, en nú þekkjumst við allavega í sjón svo við getum heilsað hvort öðru ef við mætumst á götu. Mér tókst svo að drepast áður en farið var í bæinn en var vakin með dúndurkaffibolla eftir að fólk var búið að skemmta sér nóg við að vefja mig inn í klósettpappír og taka myndir af mér og var svo manna hressust inni á Hressó eftir tvo kaffibolla í viðbót. Svo var "eftirpartí" á skrifstofu í austurstræti en ástandið var orðið þannig bara á leiðinni upp í lyftunni að fíflagangurinn þar verður bara svona fjölskylduleyndarmál og eftirpartíið varð eitthvað stutt í annan endann. Þá gerði ég tilraun til að keppa í hafnarsundi en áskoruninni var ekki tekið, kannski sem betur fer. Takk fyrir kvöldið bara.
Kannast svo einhver við hljómsveitina Tiga? Var í Smáralindinni í gær og inni í einhverri búð heyrði ég þessa líka æðislegu tónlist. Fór og spurði afgreiðslustelpuna hvað þetta væri og hún sagði Tiga og spurði svona glöð og smá hissa hvort ég fílaði þetta því margir hafa víst kvartað undan þessu. Ég fór nottla beinustu leið í skífuna og ætlaði að fá að hlusta aðeins meira og svo væntanlega kaupa. En diskurinn var ekki til í Smáralind en gaurinn hringdi niður á laugaveg og ég lét taka þetta eina eintak sem var til þar frá. Svo gleymdi ég auðvitað að fara og kaupa hann í gær svo það er stefnan eftir vinnu. Gaman að rekast svona á nýja tónlist...þarf kannski bara að vera duglegri að hanga í búðum og hlusta...eða ekki, þar sem búðaráp gerir mig alltaf örlítið þunglynda.
Uppfært: Googlaði Tiga og ekki nóg með að þetta sé geðveik tónlist heldur er þetta ekki hljómsveit heldur einhver óóógó sætur gaur...held barasta að hann megi vera kærastinn minn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)