Færsluflokkur: Vísindi og fræði
18.8.2006 | 09:34
Hæ hó og jibbí jeij og jibbí jeij, það er kominn fö-östudagur!
Og þá ríkir auðvitað gleði í mínu heilabúi...engin vinna á morgun og heldur ekki hinn!!! Vúhú!
En svo getur maður líka verið alveg ótrúlega steiktur í hausnum á föstudagsmorgnum. Ég var t.d. að keyra Miklubrautina í morgun, bara að hlusta á tónlist og keyra, sem sagt bara svona hálfur heilinn í meðvitaðri notkun. Bíllinn fyrir framan mig var með bílnúmerið R5643 og ég hugsaði "sniðugt, ef maður endurraðar þessu er þetta 3456." Svo fór ég að hugsa hvað gaurinn í bílnum (sem ég var samt ekkert búin að sjá) væri geðveikt hallærislegur að vera að monta sig svona af þessu númeri, þetta væri nú ekki það kúl, ekki einu sinni í réttri röð. Svo svona 20 sekúndum seinna fattaði ég að hann var ekkert að monta sig, bara keyra bíl eins og hver annar. Þá sló ég mig utanundir.
Það væri gaman að sjá útkomuna ef maður gæti tekið upp allar ómeðvituðu hugsanirnar sem fljúga í gegnum hausinn á manni án þess að maður taki eftir því. Það var bara heppni að ég "fangaði" þessa svo það hljóta að vera fleiri hundruð heimskupara sveimandi þarna uppi á hverjum degi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.6.2006 | 13:27
Erfðarannsóknir og upplýsingar
Sumarið 2001 var ég stödd í Hollandi í heimsókn hjá vini mínum. Á þessum tíma var Íslensk Erfðagreining og kortlegging gena íslensku þjóðarinnar mikið í umræðunni og svo skemmtilega vildi til að á meðan á heimsókninni stóð var sýnd heimildarmynd um þetta mál í hollenska sjónvarpinu. Ef ég man rétt var aðallega rætt við fólk sem var á móti þessari umfangsmiklu upplýsingaöflun og hafði áhyggjur af því hverjir fengju aðgang að þessum upplýsingum og svo framvegis og svo framvegis. Ég varð frekar pirruð á þessu fólki sem vildi setja stein í götu læknisfræðilegra framfara út af einhverju ofsóknarbrjálæði. Hvað ætti Íslensk Erfðagreining eða nokkur annar aðili í þessari rannsóknarvinnu svo sem að græða á því að fara ekki vel með allar upplýsingar? Af hverju ekki bara að treysta þeim?
Já ég sé það núna þegar ég skrifa þetta fimm árum seinna að þetta var barnalegur hugsunarháttur en hvað átti ferðalangurinn og optimistinn ég, sem var nýbúin að vera á flakki á hættulegum stöðum og búa með hættulegum götustrákum og (næstum) aldrei fengið að sjá neitt nema góðar hliðar á fólkinu sem ég kynntist, að halda?
Fyrir um það bil mánuði síðan var ég svo stödd í heimsókn hjá mömmu. Síminn hringdi, mamma svaraði, varð smá skrítin á svipinn og rétti mér símann enda komið frekar langt síðan það var hringt til hennar seinast og spurt eftir mér. Maðurinn kynnti sig og sagðist vera að hringja frá Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna. Svo bað hann mig að taka þátt í einhverri rannsókn, mamma mín væri að taka þátt í henni og hefði skrifað mig niður sem aðstandanda sem mæti hafa samband við og biðja að taka einnig þátt í rannsókninni. Ég sagði reyndar nei vegna þess að þegar maður vinnur á Grundartanga er bara of mikið vesen að mæta á skrifstofutíma í blóðprufu. Eftir símtalið sagði ég mömmu að ég nennti ekkert að taka þátt í þessari rannsókn sem hún var í. Hún sagði bara HA? Hvaða rannsókn? Þá kom á daginn að hún var ekkert búin að samþykkja að taka þátt í þessari rannsókn sjálf var sjálf að hugsa málið og var ekki búin að gefa samþykki sitt og enn síður gefa lista af aðstandendum sem ætti að hafa samband við. Nokkrum dögum seinna fékk bróðir minn sama símtalið og var sagt nákvæmlega það sama.
Fyrir nokkrum dögum fékk ég svo bréf heim, í umslagi merktu Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna.
.....Ástæðan fyrir því að ég sendi þér þetta bréf er sú að ég hef verið beðinn að kynna fyrir þér rannsókn .... á erfðum nikótínfíknar. Sjálfur er eg undirritaður ekki aðili að þessari rannsókn
......
Samkvæmt upplýsingum sem þú veittir við þátttöku þína í rannsókn á erfðum mígrenis, þá hefur þú notað tóbak um lengri eða skemmri tíma og/eða ert skyldur einstaklingi í þeirri rannsókn sem slíkt á við um. ....
Hafa þá bara allir sem ákveða að gera rannsókn á erfðum einhvers sjúkdóms óbeinan aðgang að þeim svörum sem ég gef í öðrum rannsóknum? Ég bjóst m.a.s. frekar við því að sá sem gerði mígrenisrannsóknina fyrir nokkrum árum hefði ekki aðgang að þeim upplýsingum lengur hver hefði svarað hverju, hélt að þegar búið væri að vinna upplýsingarnar væri öllum tengingum við persónur eytt. Ég er greinilega ennþá svona saklaus og barnaleg í hugsun. Eftir þessi tvö atvik hef ég öllu meiri skilning á áhyggjum fólksins í heimildamyndinni og segi að minnsta kosti fyrir mitt leiti að ég mun líklega ekki taka þátt í fleiri rannsóknum sem krefjast þess að maður treysti rannsóknaraðilum fyrir einhverjum upplýsingum um sjálfan sig. Mér finnst það bara einhvern veginn ekki mjög traustvekjandi að það sé logið að manni um þátttöku fjölskldumeðlima í rannsóknum og svörum af spurningalistum annarra rannsókna útvarpað í nafni vísindanna. Eða er ég bara að vera paranoid?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.5.2006 | 16:26
Prófessor vísindamaður Sunns!
Það var þá aldrei að maður gerði ekki eina merka uppgötvun í vinnunni. Ok, kannski ekki mjög vinnutengda, en merkilega samt...og ég er í vinnunni.
Eitthvað var föstudagurinn farinn að ná tökum á mér og ég fann á einhverju öðru bloggi link á leik sem á að þjálfa viðbrögð. Og maður er víst algjör snillingur í þessu ef maður nær 18 sekúndum. Fyrstu tilraunir enduðu nú bara í 5 sekúndum og undir, en svo "dó" ég nokkrum sinnum í 16 sekúndum og skreið loks upp í 17,9. Svo snéri ég mér aftur að því skemmtilega verkefni að reyna að komast að því hvað einhverjir ógeðslegir hlutir sem ég veit ekki einu sinni hvað gera kosta (vinnan sem sagt) og skellti Red Hot Chilli Peppers í eyrun. Þegar ég var svo búin að gefast upp á að reyna að komast til botns í því hvort óskiljanlegt orð 1 þýddi það sama og óskiljanlegt orð 2 og að þau væru þar með á sama verði fór ég aftur í leikinn. Nú náði ég 23 sekúndum tvisvar í röð. Aftur að vinna, og svo aftur í leikinn...17 sekúndur þrisvar í röð. Heyrðu, svo setti ég tjillipiprana aftur í eyrun og náði 25 sekúndum tvisvar í röð. Þ.a. vísindaleg niðurstaða mín er sú að Stadium Arcadium sé plata hinna góðu viðbragða. Readymade er 25 sekúndna lagið.
Nú á ég eftir að vera í vinnunni í svona 40 mínútur í viðbót og er að spá í að testa hvað CocoRosie og Tiga gera fyrir viðbrögðin.
Hvað er í gangi þegar það kemur þykk móða á framrúðuna um leið og maður kemur inn í Hvalfjarðargöngin þannig að maður keyrir næstum því á og þarf svo að vera með rúðuþurrkurnar á fullu allavega fyrsta kílómetrann inni í göngunum af því móðan kemur alltaf aftur?
Á meðan ég var að furða mig á þessu fór maðurinn í útvarpinu að tala um að bráðum yrði uppstigningardagur geitunga. Grátigrát. Eitthvað rámar mig í það að þegar ég var lítil stelpa í stórri borg í Þýskalandi, þar sem ég var líka stödd í íbúð með stórum glugga með nokkrum geitungum í, hafi ég skemmt mér ágætlega við geitungafjöldamorð vopnuð engu nema belti. (Ég reyndar skil ekki alveg hvernig ég var að nota belti til að drepa geitunga en svona er þetta í minningunni.) Þetta var áður en geitungar gerðu innrás í Ísland og þegar þeir komu fannst mér það svo sem ekkert gaman en ég var ekki hrædd við þessar litlu röndóttu flugur....hélt alveg kúlinu á meðan aðrar stelpur hlupu í allar áttir alveg að gera í buxurnar úr hræðslu (ok, kannski smá ýkt ...en það er allavega satt að ég hélt alveg kúlinu). Því ég vissi jú alveg að geitungar stungu (oftast) bara ef þeim fannst þeim ógnað. Þetta veit ég enn þann dag í dag og veit líka að býflugur eru ennþá meiri friðarsinnar en geitungar en samt verð ég eins og histerísk gömul kelling þegar ég sé svona feitt loðið fljúgandi kvikindi. Hvað er það? Ég skil alveg að maður hættir að þora alls konar hlutum með aldrinum, losnar við fífldirfskuna skulum við segja, en þetta er bara sönnun fyrir því að maður forheimskast líka með aldrinum. Eða ég allavega. Eins og heilastöðvarnar sem stjórna hræðslu og stöðvarnar sem vita hvað maður þarf að hræðast eigi í einhverjum samskiptaörðugleikum...eða eitthvað....örugglega til eitthvað gott orð yfir þetta á latínu.
Anyways...hann (útvarpsmaðurinn) var eflaust að lesa þetta upp úr einhverju blaði eða eitthvað og þar stóð að núna yrði væntanlega mun meira af geitungum en í fyrra. Svo bætti hann við að enginn vissi í rauninni af hverju stofninn hefði hrunið í fyrra en að það væri væntanlega bara tímabundið hrun. Ha? Vissi það enginn? Ég hélt að þeir hefðu ruglast í ríminu af því það kom eitthvað hlýindaskeið á undan sumrinu og geitungarnir fóru á stjá og svo kom frost aftur og drap þá alla. Bjó ég þessa kenningu bara til sjálf?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2006 | 16:49
Áhrif hótana vinkvenna með hormónaflæðið í botni.
Ég var nú búin að taka þá ákvörðun að vera ekkert að tjá mig hérna nema hafa eitthvað að segja. Finnst svona "hmm best að blogga eitthvað...það er fluga á veggnum....hvað get ég nú sagt ykkur meira...."-færslur ekkert skemmtilegar, hvorki til að lesa né skrifa. En þar sem Hulda er farin að hóta refsiaðgerðum verð ég að gera eitthvað í málinu....læt það nú vera að hún komi heim til mín að gráta, það er alveg guðvelkomið. Ég er aftur á móti skíthrædd um að hún komi heim, gráti smá og láti mig svo horfa á einhvern ógeðissjónvarpsþátt sem ég hef alveg haft fyrir prinsipp að horfa ekki á. En auðvitað má maður ekki segja nei við vinkonu sína sem er nýbúin að gráta. Í kvöld væri til dæmis mjög gott kvöld til slíkra refsiaðgerða þar sem bæði innlit/útlit og heil og sæl er á dagskrá svo ég þori ekki öðru en að skrifa þessar línur. Af hverju er svona mikill viðbjóður á dagskrá?
Ég ætla bráðum að fara að rúlla í bæinn og skalla mér í ljós. Er að koma mér upp smá beistani. Það er eitt af þessum verkefnum sem ég myndi aldrei nenna að standa í nema af því ég get ekki reiknað á meðan ég er í ljósum. Ég hef nú aldrei verið þessi ljósamanneskja...finnst þetta óþarfapeningaeyðsla og svo yrði ég líka hundfúl út í sjálfa mig ef ég fengi húðkrabbamein þegar ég væri loksins orðin brún en eftir að ég las á mbl á föstudaginn að líkur á húðkrabbameini aukist um helming ef maður hefur brunnið 5 sinnum í sól brunaði ég beint á næstu sólbaðsstofu og keypti 10 tíma kort. Þar sem ég hef eflaust brunnið svona 40 sinnum í sól og kannski svona 5 sinnum í ljósum er ég eiginlega pottþétt komin með sortuæxli nú þegar svo þetta skiptir ekki máli. Verð pottþétt brúnasta og hraustlegasta gellan í prófinu eftir allt of fáa daga.
Svo langar mig að vita....er ég með eitthvað stórfurðulegan smekk? Er ég til dæmis skrítin að finnast Frank N Furter hot? Og er skrítið að finnast Andri Snær Magnason eiga að vera í fyrsta sæti á lista yfir kynþokkafyllstu menn á Íslandi? Ætla að lesa Draumalandið þegar ég er búin í prófinu...og það er ekki af því Andri Snær er hot. Ég hef eiginlega enga skoðun á þessum álvers- og virkjanamálum, af því ég hef eiginlega ekki nennt að spá í þau, en það er mjög kjánalegt í ljósi þess að ég tók virkan þátt í gerð Kárahnjúkastíflu og núna í stækkun álvers....spurning að hafa að minnsta kosti skoðun á því sem maður er að vinna við, þó að áhuginn sé í lágmarki.
Fimmti hver Bandaríkjamaður greinist með húðkrabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)