Færsluflokkur: Bækur
23.7.2006 | 15:23
Ástin blómstrar
Jamm, held ég sé orðin ástfangin...ef það er þá hægt að verða ástfangin af einhverjum með því að lesa bók eftir viðkomandi. Er sem sagt búin að dömpa Tiga og farin að plana framtíðina með Andra Snæ aftur. Mikið er það satt sem ég var að ræða fyrir sona korteri að gáfur eru einn mikilvægasti hlutinn af kynþokka. Ekki það að mér finnist Andri Snær ekki bara geðveikt sætur líka....en einhvern veginn verður hann flottari með hverri blaðsíðunni sem ég les í Draumalandinu. Ég er nú ekkert endilega sammála öllu sem ég er búin að lesa en hann skrifar þetta svo skemmtilega. Er nú kannski ekki alveg fyrst með fréttirnar þar sem það hafa margir komið í sjónvarpið, útvarpið, blöðin, eða bara í heimsókn eða símann og talað um hvað hann gerir þetta skemmtilega, en þessi æsifréttabloggflutningur minn á samt alveg rétt á sér því ég hef ekki heyrt neinn segjast vera ástfanginn af honum vegna bókarlesturs. Hmm, maður er nú kannski aðeins kominn á undan sjálfum sér tilfinningalega, en ég væri allavega alveg til í eitt date eða svo. En hann á víst konu. Ætli það sé þá ekki sniðugast að ég hætti þessari vitleysu og rífi upp stærðfræðibækurnar.
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.4.2006 | 16:49
Áhrif hótana vinkvenna með hormónaflæðið í botni.
Ég var nú búin að taka þá ákvörðun að vera ekkert að tjá mig hérna nema hafa eitthvað að segja. Finnst svona "hmm best að blogga eitthvað...það er fluga á veggnum....hvað get ég nú sagt ykkur meira...."-færslur ekkert skemmtilegar, hvorki til að lesa né skrifa. En þar sem Hulda er farin að hóta refsiaðgerðum verð ég að gera eitthvað í málinu....læt það nú vera að hún komi heim til mín að gráta, það er alveg guðvelkomið. Ég er aftur á móti skíthrædd um að hún komi heim, gráti smá og láti mig svo horfa á einhvern ógeðissjónvarpsþátt sem ég hef alveg haft fyrir prinsipp að horfa ekki á. En auðvitað má maður ekki segja nei við vinkonu sína sem er nýbúin að gráta. Í kvöld væri til dæmis mjög gott kvöld til slíkra refsiaðgerða þar sem bæði innlit/útlit og heil og sæl er á dagskrá svo ég þori ekki öðru en að skrifa þessar línur. Af hverju er svona mikill viðbjóður á dagskrá?
Ég ætla bráðum að fara að rúlla í bæinn og skalla mér í ljós. Er að koma mér upp smá beistani. Það er eitt af þessum verkefnum sem ég myndi aldrei nenna að standa í nema af því ég get ekki reiknað á meðan ég er í ljósum. Ég hef nú aldrei verið þessi ljósamanneskja...finnst þetta óþarfapeningaeyðsla og svo yrði ég líka hundfúl út í sjálfa mig ef ég fengi húðkrabbamein þegar ég væri loksins orðin brún en eftir að ég las á mbl á föstudaginn að líkur á húðkrabbameini aukist um helming ef maður hefur brunnið 5 sinnum í sól brunaði ég beint á næstu sólbaðsstofu og keypti 10 tíma kort. Þar sem ég hef eflaust brunnið svona 40 sinnum í sól og kannski svona 5 sinnum í ljósum er ég eiginlega pottþétt komin með sortuæxli nú þegar svo þetta skiptir ekki máli. Verð pottþétt brúnasta og hraustlegasta gellan í prófinu eftir allt of fáa daga.
Svo langar mig að vita....er ég með eitthvað stórfurðulegan smekk? Er ég til dæmis skrítin að finnast Frank N Furter hot? Og er skrítið að finnast Andri Snær Magnason eiga að vera í fyrsta sæti á lista yfir kynþokkafyllstu menn á Íslandi? Ætla að lesa Draumalandið þegar ég er búin í prófinu...og það er ekki af því Andri Snær er hot. Ég hef eiginlega enga skoðun á þessum álvers- og virkjanamálum, af því ég hef eiginlega ekki nennt að spá í þau, en það er mjög kjánalegt í ljósi þess að ég tók virkan þátt í gerð Kárahnjúkastíflu og núna í stækkun álvers....spurning að hafa að minnsta kosti skoðun á því sem maður er að vinna við, þó að áhuginn sé í lágmarki.
Fimmti hver Bandaríkjamaður greinist með húðkrabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.4.2006 | 12:55
Er Robert Langdon snoðaður?
Hversu fyndið (eða sorglegt) er þetta?
Ef það er satt að vinsældir risakvikmyndar standi og falli með hárgreiðslu aðalleikarans, þá er ég ansi hrædd um að heilarnir í okkur séu að þróast eitthvað í öfuga átt. Eiginlega finnst mér mjög fyndið að Hollywood-yfirborðsmennskan sé komin á nýtt plan akkúrat í kringum þessa mynd. Eða er þetta ekki annars nýtt plan? Við vitum jú öll að í mörgum tilfellum er vöxtur mikilvægari en leikhæfileikar ef maður ætlar að meika það, en fólk að minnsta kosti þykist oftast fíla eða ekki fíla myndir út af söguþræðinum frekar en hárgreiðslunum.
Heimurinn varð alveg kreisí þegar Da Vinci lykillinn kom út og allir sem voru búnir að læra að lesa misstu sig yfir því hvað þetta var æðisleg og spennandi og fræðandi bók. Ég var eflaust búin að heyra frá svona 20 manns að ég bara yyyyrði að lesa hana áður en ég keypti hana eiginlega fyrir slysni á einhverjum flugvelli í London.
Hófst þá lesturinn og jújú, ég var orðin nokkuð spennt strax á fyrstu síðum og langaði jafnvel að kíkja á Louvre-safnið af því lýsingarnar í bókinni voru svo flottar. Svo heldur bókin áfram að vera spennandi og fram koma fullt af einhverjum samsæriskenningum um Jesú og Co. (blessuð sé minning hans). Og framan af er þetta bara nokkuð góður reifari. Eftir miðju hættir þetta hins vegar að vera góður reifari og breytist í alveg afleitan og veruleikafyrrtan reifara á sýrutrippi. En "fróðleiksmolar" úr mannkynssögunni og listasögunni og samsæriskenningasögunni eru ekki af skornum skammti og settir fram á þann hátt að allir, líka krakkarnir í 7 ára bekk, skilji þetta. Og ef fólk skyldi vera illa skemmt af hassreykingum, þá er það allt í lagi líka því öll mikilvægu atriðin eru tuggð ofan í mann svona 12 sinnum svo það er allt í lagi að gleyma þeim nokkrum sinnum. Svo er persónusköpun eiginlega alveg út úr kortinu sem sést best á því að mér hefði ekki getað staðið meira á sama hvort aðalpersónan yrði étin af krókódíl eða giftist hinni aðalpersónunni og þau lifðu hamingjusöm til æviloka.
Ég varð sem sagt bara ótrúlega pirruð við lestur seinni hlutans og tókst með herkjum að klára bókina vegna pirrings. Mér hefði eflaust þótt þetta allt í lagi ef ég hefði byrjað að lesa þetta sem venjulegan reifara, en eftir svona "sigurför um heiminn" og ég veit ekki hvað og hvað bjóst maður nú við aðeins meiru. Enn eina ferðina ofmat ég þýðingu almennra vinsælda. Mín kenning er sú að ástæða þessarar rosalegu sigurfarar um heiminn er að fólki finnst það gáfað þegar það les um einhverar fornar leynireglur og (mjög svo óraunhæfar) deilur milli Opus Dei og vatikansins og skilur það. Tala nú ekki um þegar það fattar eitthvað, og svo er það endurtekið 5 sinnum í viðbót sem hlýtur að þýða að "hinn almenni lesandi" hafi ekki verið búinn að fatta, sem þýðir að það hlýtur að vera yfir meðallagi gáfað.
Þess vegna finnst mér alveg extra skemmtilegt að hárgreiðsla Tom Hanks sé aðalatriðið fyrir þennan sama markhóp.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)