Færsluflokkur: Sjónvarp

Meistarinn

Fyrir soldið löngu síðan var ég heima hjá mömmu og kveikti á stöð 2 þegar svo skemmtilega vildi til að Meistarinn var í gangi. Annar keppandinn vissi allt og átti því klárlega skilið að vinna en samt en af óþekktum ástæðum fór ég strax að halda með hinum. Svo eftir að hafa horft í svona 3 mínútur var mér bara farið að vera virkilega illa við gaurinn sem vissi allt og langaði jafnvel smá til að lemja hann - og ég er nú ekki mjög ofbeldisfull að eðlisfari.

Í gærkveldi var ég svo aftur í heimsókn hjá mömmu og nú var verið að endursýna meistarann. Er þá ekki ógeðisgaurinn mættur aftur í einvígi við litla verkfræðistrákinn sem veit reyndar líka allt. Ég auðvitað öskra upp yfir mig og segi mömmu að þetta sé kallskrattinn sem mig langaði svo til að lemja án þess að vita almennilega af hverju...fyrir utan að hann var hrokafullur og leiðinlegur, en ég var ekki búin að kveikja á því þegar mig langaði fyrst að lemja hann. Þá gat mamma að sjálfsögðu frætt mig um það að þetta væri Illugi Jökulsson.

Eins og hans nafn hefur nú oft verið í umræðunni, hvernig má það vera að ég hafi aldrei séð manninn í sjónvarpi áður? (ok, gæti útskýrt eitthvað að ég er plebbi sem horfir frekar á leiðarljós en kastljós...) En vááá hvað hann fór feitt í mínar fínustu. Og svo fannst mér soldið gaman í lok þáttarins þegar hann virtist ekki skilja leikreglurnar eða vita hvort 18 eða 19 væri hærri tala. Og auðvitað fannst mér ekki verra að hann skyldi tapa fyrir tvítugum strákling. Vúhú, áfram Jónas!

Eftir að hafa analiserað aðeins hvað það var í fari Illuga sem böggaði mig svona ótrúlega mikið komst ég að því að hann er soldið eins og blanda af Birni Inga Hrafnssyni og svo einum af mínum uppáhaldsbloggarum - sem er samt alls ekki ein af mínum uppáhaldspersónum og sem sleikti einu sinni á mér kinnina í einhverju sem ég held að hafi verið viðreynslutilraun. Takk Hulda mín, þú skilur um hvern ég er að tala.


Áhrif hótana vinkvenna með hormónaflæðið í botni.

Ég var nú búin að taka þá ákvörðun að vera ekkert að tjá mig hérna nema hafa eitthvað að segja. Finnst svona "hmm best að blogga eitthvað...það er fluga á veggnum....hvað get ég nú sagt ykkur meira...."-færslur ekkert skemmtilegar, hvorki til að lesa né skrifa. En þar sem Hulda er farin að hóta refsiaðgerðum verð ég að gera eitthvað í málinu....læt það nú vera að hún komi heim til mín að gráta, það er alveg guðvelkomið. Ég er aftur á móti skíthrædd um að hún komi heim, gráti smá og láti mig svo horfa á einhvern ógeðissjónvarpsþátt sem ég hef alveg haft fyrir prinsipp að horfa ekki á. En auðvitað má maður ekki segja nei við vinkonu sína sem er nýbúin að gráta. Í kvöld væri til dæmis mjög gott kvöld til slíkra refsiaðgerða þar sem bæði innlit/útlit og heil og sæl er á dagskrá svo ég þori ekki öðru en að skrifa þessar línur. Af hverju er svona mikill viðbjóður á dagskrá?

Ég ætla bráðum að fara að rúlla í bæinn og skalla mér í ljós. Er að koma mér upp smá beistani. Það er eitt af þessum verkefnum sem ég myndi aldrei nenna að standa í nema af því ég get ekki reiknað á meðan ég er í ljósum. Ég hef nú aldrei verið þessi ljósamanneskja...finnst þetta óþarfapeningaeyðsla og svo yrði ég líka hundfúl út í sjálfa mig ef ég fengi húðkrabbamein þegar ég væri loksins orðin brún en eftir að ég las á mbl á föstudaginn að líkur á húðkrabbameini aukist um helming ef maður hefur brunnið 5 sinnum í sól brunaði ég beint á næstu sólbaðsstofu og keypti 10 tíma kort. Þar sem ég hef eflaust brunnið svona 40 sinnum í sól og kannski svona 5 sinnum í ljósum er ég eiginlega pottþétt komin með sortuæxli nú þegar svo þetta skiptir ekki máli. Verð pottþétt brúnasta og hraustlegasta gellan í prófinu eftir allt of fáa daga.

Svo langar mig að vita....er ég með eitthvað stórfurðulegan smekk? Er ég til dæmis skrítin að finnast Frank N Furter hot? Og er skrítið að finnast Andri Snær Magnason eiga að vera í fyrsta sæti á lista yfir kynþokkafyllstu menn á Íslandi? Ætla að lesa Draumalandið þegar ég er búin í prófinu...og það er ekki af því Andri Snær er hot. Ég hef eiginlega enga skoðun á þessum álvers- og virkjanamálum, af því ég hef eiginlega ekki nennt að spá í þau, en það er mjög kjánalegt í ljósi þess að ég tók virkan þátt í gerð Kárahnjúkastíflu og núna í stækkun álvers....spurning að hafa að minnsta kosti skoðun á því sem maður er að vinna við, þó að áhuginn sé í lágmarki.


mbl.is Fimmti hver Bandaríkjamaður greinist með húðkrabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband