Úr öllum áttum - Samhengislausasta færsla í heimi

Skapsveiflur er án efa orð mánaðarins. Einhver yfirnáttúruleg kátína búin að vera ríkjandi í hausnum á mér undanfarna daga, sem sagt eftir að ég kláraði að syrgja gengi mitt í prófinu og byrjaði að fagna því að það væri búið, hvernig svo sem fór. Það gæti auðvitað líka verið hluti af vormaníunni. Kátínútímabilið kom beint í kjölfarið á lærdómsþunglyndistímabili during which ég hefði getað orðið ólympíulmeistari í ekkibrosi. (Enn einu sinni sannast það að annað hvort kann ég ekki íslensku eða að enska sé bar amiklu sniðugra tungumál - hvað gæti ég sett í staðinn fyrir "during which" á réttu tungumáli?) Svo bara allt í einu seint í gærkveldi var bara engin kátína á svæðinu lengur - og engar ástæður sjáanlegar - og ég var í feitri fýlu held ég í alla nótt á meðan ég svaf, dreymdi örugglega einhverja fýlu, og vaknaði í feitri fýlu sem hélt sér alveg fram að hádegi. Svo núna er ég bara í stuði aftur. Svo er mér reyndar líka búið að vera fáránlega heitt í gær og í dag líka. Einhver séns að ég sé komin á breytingaskeið 23 ára? Annars gæti það líka verið peysan sem ég var í í gær og í morgun og hangir núna á stólbakinu hjá mér - er ekki frá því að mér sé hætt að vera heitt eftir að ég fór úr henni, en þá vantar útskýringar á skapsveiflunum.

Þegar ég kom heim í gærkveldi fékk ég svo sönnun á því að vorið er búið og sumarið komið því ég hitti fyrstu könguló ársins á baðherberginu en þær eru alveg þó nokkrar köngulærnar sem leigja hjá mér á sumrin. Nú bíð ég bara spennt eftir vinum þeirra trjákeppunum sem gengu undir nafninu klósettpöddur í nokkra mánuði í fyrra vegna misskilnings. Skelli inn mynd fyrir þá sem ekki hafa orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast þessum krúttlegu bjöllum persónulega.

Ef það hafði farið fram hjá einhverjum, þá er ég ennþá sama nördið og ég var þegar ég var að lesa orðabækur meið Chris D. hérna í denn. Var sem sagt að komast að því núna hvernig maður opnar Visual Basic editorinn í excel og ég er að missa mig í einhverjum macro-skrifum og ég bara trúi ekki að enginn hafi sagt mér áður hvað þetta er sniðugt. Maður getur bara gert dagsvinnu á nótæm....og þó að nokkrar for- og if-lykkjur séu kannski ekki merkileg forritun á almennan mælikvarða þá er þetta nóg til að skemmta mér.

Sá svo áðan að einhverjum gaur hefur leiðst eitthvað rosalega því hann svaraði leiðindaspurningalistanum hérna nokkrum færslum neðar þótt við þekkjumst ekki neitt. Þegar hann átti að lýsa mér í einu orði skrifaði hann ágeng. Þetta finnst mér alveg extra fyndið því um daginn bað ég vin minn að lýsa mér í þremur orðum og á meðan hann var að hugsa ákvað önnur manneskja að nýta tækifærið til að koma sinni skoðun á framfæri og það fyrsta sem hún sagði var einmitt ágeng. Frek og ákveðin fylgdu svo strax í kjölfarið. Svo sagði vinur minn auðvitað eitthvað fallegt...enda þekkir hann mig beturUllandi.

Nú ætla ég að skemmta mér aðeins meira í excel og fara svo í bæinn að veifa visakortinu. Á innkaupalistanum er vonandi ein kaffihúsaferð...er að bíða eftir svari frá væntanlegum félagsskap, þrír geisladiskar, vax og origami pappír. Er ekki eitthvað mikið að fólki sem fær allt í einu þá flugu í höfuðið að byrja að læra origami um hásumar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hummm trjákeppir humm ok þær eru voða sætar sko híhíhí
Vildi að þú gætir komið með á morgun en við eigum nú alveg eftir að grilla aftur í sumar og þá verður tekið djamm með því:) líst þér ekki vel á það:)

Sandra dí (IP-tala skráð) 11.5.2006 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband