Áfram Ísland! og ég! og 19. júní!

Er það ekki skemmtileg tilviljun að Aung San Suu Kyi eigi afmæli sama dag og ég? OK, reyndar skemmtilegri tilviljun að hún eigi afmæli á kvenréttindadaginn, en maður má nú vera soldið sjálfhverfur á afmælinu sínu ekki satt? En hvað er annars málið með það að það sé ekki búið að ná henni úr þessu stofufangelsi? Einhvern veginn náðum við nú Bobby Fischer úr fangelsi og ég held að Aung San Suu Kyi eigi enn síður heima í fangelsi en hann. Og pæliði í því ef þetta væri svona hérna heima, Geir H. Haarde myndi bara stinga Steingrími J í steininn fyrir...tja...nú veit ég ekki....að vera of sannfærandi ræðumaður með "rangar" hugmyndir...nei höfum þetta frekar Össur þar sem hann á líka afmæli í dag. En svona er víst bara lífið....ljótt og ósanngjarnt.

Og þar er einmitt komin ástæðan fyrir því að það er óhollt fyrir sálina að hugsa bara um heimsmálin og allt fólkið sem á bágt, og stundum á maður bara að hugsa um sjálfan sig og hafa gaman að lífinu. Sem ég einmitt gerði á föstudaginn í þessari líka fínu pakkainnheimtu. Ég var komin með tónlistina og partígleðina í botn löngu áður en fyrstu gestir mættu og mig hefði bara aldrei grunað að ég gæti skemmt mér svona vel í partíi með sjálfri mér. Skemmti mér nú samt ennþá betur eftir að gestirnir komu og ég fékk gjafir. Ég ætla sem sagt aldrei að þroskast...orðin 24 og finnst ennþá alveg óendanlega gaman að fá pakka. Laugardagurinn fór eiginlega bara í rólegheit og að jafna sig og að horfa á allavega hluta úr þessum handboltaleik. Var með einhverjar hugmyndir um bæjarferð, langaði að sjá eitthvað af þessu liði sem var að spila þarna um kvöldið, en svo bara lagði ég mig óvart í staðinn, vaknaði svo smá og fór svo bara að sofa. Bara mjög ljúfur þjóðhátíðardagur að mínu mati.

Þegar ég vaknaði í gær var mitt fyrsta verk að láta plata mig með upp á Esju. Ég er víst Reykvíkingur og þeir eiga víst að ganga á Esjuna og mér hefur lengi fundist ég smá lúði að hafa aldrei farið þarna upp. Þegar ég var búin að labba í um það bil 5 mínútur, áður en ég varð dauðþreytt og handónýt, mundi ég allt í einu hvað mér finnst óendanlega leiðinlegt að labba upp á fjöll. Þá kom barnið aftur upp í mér, þetta sama og finnst svo gaman að fá pakka, nema núna tók ég soldið annan pól í hæðina og fór að haga mér eins og 4 ára krakki í frekjukasti. Fór í fýlu, skammaði pabba og Sindra fyrir að leyfa mér að koma með, vældi um að mig langaði heim og fleira í þeim dúr - og ekki batnaði það þegar mér var orðið ííískalt líka. Mér til varnar vil ég taka fram að ég gerði mér grein fyrir þessari óskemmtilegu hegðun minni allan tímann og sagði oft við pabba að hann ætti bara að fara á undan og ekki láta mig skemma ferðina með svona stælum. En hann og Sindri eru báðir svo þolinmóðir, þessar elskur, og þeim fannst greinilega alveg ótækt að ég leggði í svona hrikalega svaðilför án þess að komast á toppinn að þeir lölluðu þetta á mínum hraða og létu eins og þeir tækju ekki eftir því að ég var leiðinleg og í fýlu. Á einhvern stórdularfullan hátt finnst mér núna í minningunni eins og það hafi verið gaman - og samt var þetta bara í gær. Ætli þessi skrítna minnisbrenglun sé ástæðan fyrir að ég læt alltaf plata mig í svona aftur og aftur? Var líka í feitri fýlu í einhverri fjallgöngu sem við fórum í síðasta sumar (og gott ef það var ekki m.a.s. að mínu frumkvæði) en samt er hún líka skemmtileg í endurminningunni.

Mætti svo með köku í vinnuna morgun (er ekki annars ennþá morgunn kl. hálf 11?) svo allir komust að því að ég á afmæli og þess vegna sögðu allir til hamingju með afmælið við mig, og aftur breyttist ég í glaða 7 ára krakkann sem finnst alveg óendanlega gaman að eiga afmæli. Ætla bara að halda áfram að einbeita mér að því stórmerkilega verkefni að eiga afmæli það sem eftir er dags....síjúsleiters.


mbl.is Aung San Suu Kyi eyðir afmælisdeginum ein í stofufangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið snúlla:)

Agnes (IP-tala skráð) 19.6.2006 kl. 23:50

2 identicon

Soldið glatað að ég hafi óskað þér til hamingju afmæælið á Huldu síðu - hamingjuóskir hér með... afmælisdagurinn þinn er ennþá hérna megin við Hafið.

AuðurA (IP-tala skráð) 20.6.2006 kl. 00:33

3 Smámynd: Sunna

hehe...takktakk....það má líka alveg halda áfram að óska mér til hamingju þótt hann sé búinn...ég er að spá í að eiga bara afmæli alla vikuna hvort eð er:P

Sunna, 20.6.2006 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband