20.6.2006 | 13:29
Kínverjar á tunglinu, lýðræði vs. einræði og persónuleg vitundarvakning
Jesús Pétur og Santa María! Hvaða voðalega pissukeppni er þetta hjá þessum þjóðarleiðtogum alltaf hreint? Hvað ætla þeir að græða á þessum tunglferðum? Og so sorry, en mér finnst bara ekkert merkilegt að vera þriðja þjóðin til að senda mann út í geim. Ef ég er ekki orðin bara snargeðveik og farin að ímynda mér hluti, þá var ég í Kína fyrir 2 árum eða svo og þá sýndist mér nú vera alveg fullt af þarfari málaflokkum fyrir þá að setja þennan efnahagslega styrk sinn í. Já ég segi það og skrifa, heimurinn væri betri ef ég væri einræðisherra yfir honum öllum.
Og talandi um einræðisherra....Það var vinnuskvísupottapartí fyrir 2 helgum síðan og eftir nokkra bjóra og nokkur kampavínsglös var ég búin að finna skoðanasystur í pottinum sem var sem sagt sammála mér í því að þetta lýðræði sem við búum við og verið er að reyna að fá allan heiminn til að taka upp sé ekki nógu sniðugt kerfi af hinum ýmsustu ástæðum, og að menntað einræði væri bara miklu sniðugri kostur. Við erum að vísu ekki búnar að finna neina praktíska útfærslu á ýmsum smáatriðum eins og hvernig skuli velja góða einræðisherra eða hvernig eigi að passa upp á að þeir verði ekki bara tjúllaðir af öllum völdunum með tímanum og hætti að vera góðir einræðisherrar. En við vorum komnar með þá bráðabirgðalausn að sjá bara um þetta sjálfar, eða hún mátti vera einræðisherra og ég sérstakur ráðgjafi. Eitt af okkar fyrstu verkum átti að vera að hækka bensínverð um ein 400% (en bæta að sjálfsögðu um leið almenningssamgangnakerfið verulega) þar sem svona "smáhækkanir" eins og hafa orðið nýlega virðast ekkert draga úr notkun einkabílsins.
Þetta eru auðvitað engar stórfréttir, bara pólitískt fyllerísbull (með miklu sannleiksívafi þó) í heitum potti - en einhver áhrif hafði þetta þó á mig því síðan þá er ég bara ekki búin að hreyfa bílinn nema ég sé að fara eitthvað sem er engan vegin í göngufjarlægð (nema reyndar einu sinni þegar ég var að fara að kaupa áfengi í massavís - ein 10 kg eða svo, 1,5 km í burtu og var á hraðferð, þá keyrði ég). Á þessum tíma er ég búin að fara þrisvar labbandi í bæinn, fjórum sinnum út á videoleigu og tvisvar í ljós. Allt ferðir sem ég hefði annars farið keyrandi-bara af því maður er örlítið fljótari að því. Þó að þessar stuttu gönguferðir mínar geri kannski ekki gæfumuninn fyrir ósonlagið eða nærri uppþornaðar olíulindir heimsins, og jafnvel ekki mikið fyrir mína persónulega bensíneyðslu, þá er það góð tilfinning að vera að fara eftir því sjálfur sem manni finnst og predikar að allir eigi að gera.
Kínverjar ætla að senda mann til tunglsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hefur ekkert með þörf að gera. Auðvitað væri mikið betra að eyða peningunum í mat og klósettpappír (ef kínverjar notuðu slíkt) en það er bara ekkert sexý.
Annars óska ég þér alls hins besta á nýju framabrautinni. Ég vona að þú hugsir til mín þegar kemur að því að ráða í stjórnunarstöðurnar. Ég hef mikið álit á stjórnunarhæfileikum mínum og er viss um að mér liði ágætlega í einhverju ráðuneytinu.
Villi Asgeirsson, 20.6.2006 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.