Nostalgía dauðans

Neibb, nýstárlega leiðin mín til að vakna á morgnana virkar ekki. Reyndi hana í morgun með því að fara að sofa kl. 5 og ætlaði að vakna hálf 8, og viti menn, það klikkaði allverulega!

Nive kom til landsins á laugardaginn, er hérna með kærastanum sínum og mömmum þeirra beggja og í gærkveldi hittumst við niðri í bæ og fengum okkur einn öl, rifjuðum upp gamla tíma og ræddum lífið og tilveruna. Svo fengum við okkur kannski einn bjór í viðbót og jafnvel einn til. Svo bara allt í einu var verið að loka og við vorum sko ekki búnar að tala, svo við röltum heim til mín og héldum áfram að tala þar.

Ég hef ekki hitt hana síðan 2002 þegar þessi mynd var tekin og auðvitað var geðveikt gaman að sjá hana. Samt fannst mér ekki eins og ég væri að hitta vinkonu mína í fyrsta skipti í 4 ár, um leið og við hittumst var bara eins og það væri ekkert eðlilegra í heiminum en að sitja á Brennslunni með Nive, og vá hvað ekkert hefur breyst þó að allt hafi breyst, skiljiði?

Þegar við komum heim til mín setti ég Drvie með Bic Runga í, disk sem við Nive rauluðum reglulega lag fyrir lag úti í Noregi og svo Californication sem við hlustuðum á svona grilljón sinnum á rölti okkar um Osló eftir að við uppgötvuðum að við gleymdum báðar vegabréfunum okkar og restin af hópnum var búin að stinga okkur af og fara til London. Árbækur og myndir voru grafnar upp og reyndar komumst við ekkert í gegnum árbækurnar, festumst í myndunum sem er ágætt því þá eigum við hitt eftir.

Vá þvílíka nostalgían og upprifjunin! Og vá hvað maður á að rifja svona upp gamlar minningar stundum, annars kannski týnast þær. Nive rifjaði upp fullt af skemmtilegum hlutum sem ég var búin að gleyma þangað til hún sagði þá og öfugt. Við töluðum líka um ekki svo skemmtilegu mómentin og það komu m.a.s. fram áður óþekktar upplýsingar.

Í dag er ég svo auðvitað dauðþreytt og get ekki neitað því að það er örlítil stærðarinnar þynnka í gangi líka því heima fann ég líka nokkra bjóra og varð svo auðvitað að gefa túristanum að smakka tópas úr flösku við góðar undirtektir og ekki gat ég skilið sjálfa mig útundan. Samt söng ég hástöfum með Bubba alla leið í vinnuna og er búin að vera syngjandi og flautandi í vinnunni líka og vá hvað það er gaman að vera til bara - myndi þakka fyrir frábært kvöld ef Nive bara kynni íslensku og vissi að ég ætti bloggsíðuUllandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gódur diskur...Drive med Bic Runga. Minn svo rispadur ad thad er ekki haegt ad hlusta a hann med godu moti lengur.

Solla (IP-tala skráð) 25.7.2006 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband