Mótmælendur, helgin og ný byrjun

Oh þessir mótmælendur eru svo miklir bjánar. Í fyrsta lagi, hvað halda þeir að þeir geti stoppað úr þessu? Og í öðru lagi eru þetta allt svo miklar bavíanaaðgerðir að þeir koma óorði á náttúrverndarsinna og mótmælendur yfir höfuð svo maður fer ósjálfrátt að tengja slík áhugamál við greindarskort sem er þó engan veginn réttlátt.

Í öðrum fréttum er það helst að ég borðaði geðveikt góðan mat hjá Tótu á föstudagskvöldið og sofnaði svo í partíinu sem fylgdi og vaknaði ekki fyrr en Tóta og Nico voru búin að fara í annað partí og bæinn og voru komin heim til að reka mig úr rúminu sínu. Eftir það tókst mér ekki að sofna aftur svo ég horfði á barnatímann á RÚV á laugardagsmorgun í nýja fína sjónvarpinu mínu, en það gamla lagaðist einmitt af sjálfu sér sama dag og ég fékk það nýja svo nú er þetta gamla 28" bara til sölu eða eitthvað. Svo fór ég í Smáralindina eiginlega um leið og hún opnaði því mér leiddist og ég kann greinilega ekki að vera vakandi á laugardagsmorgnum. Þar settist ég niður á café adesso eða hvað það nú heitir með tölvuna mína og skrifaði ógeðslega langa og skemmtilega færslu um bæði föstudagskvöldið og sjónvarpið en ég var svo mikið fífl að mér tókst að láta tölvuna verða alveg batteríslausa svona sekúndu áður en ég ýtti á "vista og birta"-takkann svo hún hvarf. Af hverju ég var ekki löngu búin að ýta á "vista sem uppkast"-takkann veit ég ekki...ætli ég sé ekki bara fífl. Þar sem ég nenni ekki að skrifa sömu hlutina tvisvar er bara stutta og ófyndna útgáfan af föstudagskvöldinu og sjónvarpinu látin duga.

Við mamma skelltum okkur svo í bíltúr á Laugarvatn í smá heimsókn til Gogga frænda og co rétt eftir hádegi sem varð svo ekkert smá heimsókn. Eftir mikið spjall, kökuát og leik við hinn tæplega eins árs og ótrúlega krúttlega Brimi fórum við að spila Catan - landnemar, sem við mamma vorum að prófa í fyrsta skipti og vá hvað þetta er skemmtilegt spil. Svo var okkur bara boðið í kvöldmat (útigrillaður lax...mmmmm) og eftir mat var tekið annað spil og við mamma komum í bæinn um miðnætti. Þetta spil verður án efa næsta fjárfesting mín og þá verður sko enginn sem kemur í heimsókn óhultur...ég mun neyða fólk til að læra þetta og spila. Og þetta finnst mér þrátt fyrir að hafa eiginlega bara skitið á mig í bæði skiptin sem við spiluðum.

Þá er kannski komið að því að útskýra síðustu færslu aðeins. Síðasta prófið er í höfn og útskrift úr verkfræðideild í október verður að raunveruleika. Í tilefni af því ákvað ég að ég vil ekki vera verkfræðingur. Hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessum leiðindafræðum og hef aldrei haft og hvernig ég hef lifað þetta af í 5 ár án þess að lenda í neinu alvarlegu þunglyndi er ofar mínum skilningi. En um daginn fattaði ég loksins að þótt ég hafi asnast til að skrá mig í verkfræði í háskólanum fyrir 5 árum síðan þarf ég ekki að líða fyrir þá slæmu ákvörðun allt mitt líf - er langt frá því að vera of gömul til að breyta til. Og mikið er ég fegin að ég fattaði þetta núna en ekki eftir 20 ár. Þó að verkfræðingar haldi öðru fram, þá trúi ég því að það eigi að vera gaman í vinnunni og veit að það er til fólk sem finnst gaman í vinnunni svo ég bara ætla að stefna að því og fara í eitthvað nýtt og spennandi nám eftir ár. Í millitíðinni ætla ég að skella mér á sjó og veiða fisk sem er eitthvað sem mig langaði alltaf mikið til að gera þegar ég var unglingur en gerði aldrei. Og nei, ég er ekki að djóka eins og langflestir sem ég hef sagt frá þessu halda. Ætli ég sé ekki bara svona klikkuð.


mbl.is Mótmælendur tóku yfir verkfræðistofu á Reyðarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég stolt af þér Sunna !! Lífið er of stutt til að eyða því í leiðinlega vinnu- í eitthvað sem maður hefur ekki áhuga á. Gott samt að hafa klárað gráðuna fyrst þú varst nánast búin. Nú geturu aldeilis hlakkað til að gera það sem þig langar.

Hugrún (IP-tala skráð) 15.8.2006 kl. 09:17

2 Smámynd: Björn Sighvatsson

Kannski er verið að mótmæla núna til þess að það verði ekki of seint áður en það verður virkjað næst! Það er soldið erfitt að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum en að mótmæla núverandi framkvæmdum hægir kannski aðeins á ákvarðanagleði mishæfra stjórnmálamanna áður en þeir taka næstu ákvörðun.

Björn Sighvatsson, 15.8.2006 kl. 11:58

3 Smámynd: Björn Sighvatsson

Kannski er verið að mótmæla núna til þess að það verði ekki of seint áður en það verður virkjað næst! Það er soldið erfitt að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum en að mótmæla núverandi framkvæmdum hægir kannski aðeins á ákvarðanagleði mishæfra stjórnmálamanna áður en þeir taka næstu ákvörðun.

Björn Sighvatsson, 15.8.2006 kl. 11:58

4 Smámynd: Sunna

já hugrún ég er allavega mjög sátt með mig þessa dagana sko:P Ótrúlega endurnærandi að vera að rífa sig út úr einhverju leiðindamynstri sem maður var óvart orðinn fastur í.

Og kýr (eða á þetta virkilega að vera kú?), það er reyndar rétt að mótmæli við þessa framkvæmd gætu hugsanlega haft áhrif á ákvarðanatöku um þá næstu...en þegar þetta er svona heimskulega gert efast ég um að þau séu að ná miklu fram. Sem er mjög sorglegt því virkjanaandstæðingar og stóriðjuandstæðingar hafa alveg fullt til síns máls, en þegar einhverjir bavíanar sem vita ekkert hvað þeir eru að tala um hlekkja sig við vinnuvélar, vinna skemmdarverk, loka fólk inni á skrifstofum og ljúga svo blákalt í fjölmiðlum, þá bara eru þeir ekki að hjálpa málstaðnum.

Sunna, 15.8.2006 kl. 14:08

5 identicon

Til hamingju með að vera búinn að finna þig, Sunna.
Svo held ég að Jón vinur þinn, guðfræðingurinn, búi í sömu götu og þú. Þú getur því farið og spjallað við hann um afhommun og jafnvel áhommun í kaffinu. Ég væri nú alveg til í að prófa svona meðferð og sjá hvernig hún virkar á mig.
Davíð Rósenkrans

Davíð Rósenkrans Hauksson (IP-tala skráð) 21.8.2006 kl. 12:38

6 Smámynd: Sunna

já, kemurðu ekki bara með mér í kaffi til hans?

Og takk fyrir hamingjuóskirnar...er alveg viss um að þetta á eftir að vera mér til mikillar hamingju þegar fram líða stundir.

Sunna, 21.8.2006 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband