Er Robert Langdon snoðaður?

Hversu fyndið (eða sorglegt) er þetta?

Ef það er satt að vinsældir risakvikmyndar standi og falli með hárgreiðslu aðalleikarans, þá er ég ansi hrædd um að heilarnir í okkur séu að þróast eitthvað í öfuga átt. Eiginlega finnst mér mjög fyndið að Hollywood-yfirborðsmennskan sé komin á nýtt plan akkúrat í kringum þessa mynd. Eða er þetta ekki annars nýtt plan? Við vitum jú öll að í mörgum tilfellum er vöxtur mikilvægari en leikhæfileikar ef maður ætlar að meika það, en fólk að minnsta kosti þykist oftast fíla eða ekki fíla myndir út af söguþræðinum frekar en hárgreiðslunum.

Heimurinn varð alveg kreisí þegar Da Vinci lykillinn kom út og allir sem voru búnir að læra að lesa misstu sig yfir því hvað þetta var æðisleg og spennandi og fræðandi bók. Ég var eflaust búin að heyra frá svona 20 manns að ég bara yyyyrði að lesa hana áður en ég keypti hana eiginlega fyrir slysni á einhverjum flugvelli í London.

Hófst þá lesturinn og jújú, ég var orðin nokkuð spennt strax á fyrstu síðum og langaði jafnvel að kíkja á Louvre-safnið af því lýsingarnar í bókinni voru svo flottar. Svo heldur bókin áfram að vera spennandi og fram koma fullt af einhverjum samsæriskenningum um Jesú og Co. (blessuð sé minning hans). Og framan af er þetta bara nokkuð góður reifari. Eftir miðju hættir þetta hins vegar að vera góður reifari og breytist í alveg afleitan og veruleikafyrrtan reifara á sýrutrippi. En "fróðleiksmolar" úr mannkynssögunni og listasögunni og samsæriskenningasögunni eru ekki af skornum skammti og settir fram á þann hátt að allir, líka krakkarnir í 7 ára bekk, skilji þetta. Og ef fólk skyldi vera illa skemmt af hassreykingum, þá er það allt í lagi líka því öll mikilvægu atriðin eru tuggð ofan í mann svona 12 sinnum svo það er allt í lagi að gleyma þeim nokkrum sinnum. Svo er persónusköpun eiginlega alveg út úr kortinu sem sést best á því að mér hefði ekki getað staðið meira á sama hvort aðalpersónan yrði étin af krókódíl eða giftist hinni aðalpersónunni og þau lifðu hamingjusöm til æviloka.

Ég varð sem sagt bara ótrúlega pirruð við lestur seinni hlutans og tókst með herkjum að klára bókina vegna pirrings. Mér hefði eflaust þótt þetta allt í lagi ef ég hefði byrjað að lesa þetta sem venjulegan reifara, en eftir svona "sigurför um heiminn" og ég veit ekki hvað og hvað bjóst maður nú við aðeins meiru. Enn eina ferðina ofmat ég þýðingu almennra vinsælda. Mín kenning er sú að ástæða þessarar rosalegu sigurfarar um heiminn er að fólki finnst það gáfað þegar það les um einhverar fornar leynireglur og (mjög svo óraunhæfar) deilur milli Opus Dei og vatikansins og skilur það. Tala nú ekki um þegar það fattar eitthvað, og svo er það endurtekið 5 sinnum í viðbót sem hlýtur að þýða að "hinn almenni lesandi" hafi ekki verið búinn að fatta, sem þýðir að það hlýtur að vera yfir meðallagi gáfað.

Þess vegna finnst mér alveg extra skemmtilegt að hárgreiðsla Tom Hanks sé aðalatriðið fyrir þennan sama markhóp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Já, þetta var ágætis bók, sem skáldsaga var hún vel skrifuð og grípandi, ég hafði einmitt heyrt mjög vel af henni látið áður en ég byrjaði að lesa hana, en mögulega vegna almennrar tortryggni minnar gagnvart vinsælum skoðunum þá bjóst ég ekki við neinu sem ætti að breyta lífi mínu.

Ég man nú ekki eftir að endurtekningar hafi farið sérstaklega í taugarnar á mér, en þetta var nú svo auðlesið að ég held ég hafi lesið bókina á 2 kvöldstundum, en jú þetta var mjög vel útskýrt og féll því í mjúkan jarðveg hjá allflestum lesendum.

Áhugaverður punktur að sama fólkið og þarf þessar endurtekningar fari svo í kerfi útaf hárgreiðslu, gleymir því kannski að Tom Hanks er ekki að leika sjálfan sig, heldur Robert Langdon, en ég hafði aldrei séð hann fyrir mér sem einhverskonar trendy gæja, frekar akademískan mann með virðulegri (lesist: ekki-tísku) hárgreiðslu ;-)

Steinn E. Sigurðarson, 18.4.2006 kl. 15:45

2 Smámynd: Sunna

Ég sá hann einmitt alltaf fyrir mér með soldinn lubba...ekkert ósvipaðan því sem mér sýnist Tom Hanks vera með á myndinni með Junihiro Koizumi.
Og ég held að það skipti fólkið engu máli hvort hárgreiðslan tilheyri Langdon eða Hanks...þetta þykir víst bara fráhrindandi.

Sunna, 18.4.2006 kl. 15:54

3 identicon

Eins og ég segi; þetta er fín bók fyrir lið sem hefur fram að þessu ekkert lesið nema sjónvarpshandbókina...allar bækurnar hans Arnalds Indriða falla í sama flokk.
Jamm, maður er hrokagikkur og stoltur af því :P

Hulda (IP-tala skráð) 18.4.2006 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband