27.4.2006 | 15:22
Ex spurningarmerki punktur is
Nú fer að líða að kosningum. Eins og svo oft áður (eða þessi tvö skipti sem ég hef mátt kjósa) hef ég barasta ekki hugmynd um hvað er sniðugt að kjósa og hvað ekki.
Ég man þegar ég bjó mig undir að taka þátt í mínum fyrstu kosningum, sem voru borgarstjórnakosningarnar 2002. Ég hef aldrei verið nein sérstök áhugamanneskja um pólitík en það var svo sem vitað mál á mínu heimili að allt viti borið fólk kaus einn ákveðinn flokk. Ég vissi svo sem ekkert af hverju og hafði þó allavega nóg vit í kollinum vorið 2002 til að ákveða meðvitað að kjósa ekki bara það sem ég hafði alist upp við að maður ætti að kjósa, heldur fylgjast með umræðum og lesa stefnuskrár flokkanna og mynda mér svo mína eigin skoðun.
Ég settist niður fyrir framan imbann eitt kvöldið þegar fulltrúar R- og D-listans voru eitthvað að fara að kíta í Kastljósinu, tilbúin og spennt að hefja rannsóknarvinnu fyrir mína fyrstu pólitísku skoðun. Eftir svona 5 mínútur missti ég svo allan áhuga því mér fannst umræðurnar vera á álíka háu plani og ræðukeppnirnar sem ég tók þátt í í grunnskóla (takið MORFÍS keppni og deilið í með tveimur). Allt snerist þetta um útúrsnúninga og meting og ég skildi allt í einu af hverju einhver fann upp hugtakið sandkassapólitík.
Nú er aftur komið að því að velja og ég ætla að gefa þessu með upplýstu og sjálfstæðu ákvörðunina annan séns. Af einhverjum ástæðum segir mér svo hugur að þetta sé ekki komið á neitt hærra plan en fyrir fjórum árum og er skuldaklukkan sem sjálfstæðismenn eru með á sinni heimasíðu, betriborg.is, gott dæmi um það. Já ok, við vitum það, skuldir reykjavíkurborgar eru himinháar en þessi klukka er bara svona dæmigert cheap auglýsingatrikk - af hverju ekki að hafa brjóst á öllum plakötum bara líka?
Finnst samfylkingin svo sökkva sér á niður á sama plan með því einu að tala um þessa skuldaklukku á sinni síðu og í þessum líka skemmtilega morfís-stíl, sem er einmitt skemmtilegur, en ekki málefnalegur.
Svo finnst mér alveg kostulegt að eitt af kosningaloforðum framsóknar sé vatnsrennibrautagarður að erlendri fyrirmynd. Já ok, ég er alveg til í vatnsrennibrautagarð....er hægt að fá sólskin og 30°C með því? Og væri peningunum ekki betur varið í eitthvað annað? Og flugvöllinn á Löngusker - lýst vel á það og það myndi alveg virka samkvæmt bæði verkfræðingum og flugfélagsmönnum. En nú spyr sú sem ekki veit - skiptir það engu máli að Reykvíkingar eiga ekki Löngusker?
Núna hóf ég heimildavinnu mína á því að kíkja á heimasíður framboðanna til að kíkja á helstu stefnumál. Vinstir grænir eru bara ekki með neina síðu fyrir bæjarstjórnarkosningar en ég geri ráð fyrir að þeir passi alveg inn í mynstrið. Finn svo sem ekki aðgengilegan lista yfir helstu stefnumál hjá sjálfstæðismönnum heldur og finnst heimasíðan þeirra alveg einstaklega óþægileg aflestrar.
Í fljótu bragði sýnist mér hins vegar allir flokkar vilja bættar samgöngur, aukið sjálfstæði skóla og bætta menntun, íþróttir og tómstundir handa öllum, bætt græn svæði, fjölbreytt húsnæðisframboð, bætta þjónustu fyrir aldraða, meira samráð við íbúa og gjaldfrjálsan leikskóla. Já og ekki má gleyma því að Reykjavík á að vera nútímaborg og háhraðasamfélag...hvað sem það nú þýðir.
Allt er þetta gott og blessað en þar sem allir vilja það sama og enginn minnist á hvar á að fá peninga fyrir herlegheitunum er ég bara engu nær um hvað ég á að kjósa. Held ég verði bara að vera sammála því sem ég las á einhverrji bloggsíðunni, að þessi flokkapólitík sé orðin úrelt og að borgarstjórnarkosningar ættu að vera kosningar um fólk.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fyndið, var í sömu rannsóknarvinnunni og þú áðan, kíkti á heimasíðurnar, las stefnumálin og reyndi að mynda mér skoðun. Er eiginlega engu nær um hvað skal kjósa.
Vantar alveg allt tal um af hverju útsvarið er í botni og fasteignagjöldin sky high og hvort eigi að taka á því. Held að útsvarið lækki í það minnsta ekki með vatnsrennibrautagarðinum eða tugmilljarðakróna flugvallarflutningi á Löngusker.
Maður gerir kannski upp hug sinn í kjörklefanum bara ;)
Huldusinn (IP-tala skráð) 27.4.2006 kl. 15:55
kannski það verði bara úllendúllendoff sem blívar
Sunna, 27.4.2006 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.