Færsluflokkur: Bloggar

Huldudóttir fædd!

Jebb, Huldus er víst loksins hætt að vera ólétt, fæddi litla stelpu bara rétt áðan, og ég verð nú eiginlega að viðurkenna það að ég er öll mun uppveðraðri og spenntari yfir þessu en ég bjóst við...er eiginlega pinkulítið að tapa mér og langar helst bara að bruna í bæinn og skoða krílið. En það má víst ekki strax er það? Ég kann ekkert á svona dót maður, og er svo símalaus í þokkabót svo ef ég er að fá einhver upplýsinga-sms þá fæ ég þau ekki.

En bottomlænið er:

Til hamingju elsku Huldus minn!


Nostalgía dauðans

Neibb, nýstárlega leiðin mín til að vakna á morgnana virkar ekki. Reyndi hana í morgun með því að fara að sofa kl. 5 og ætlaði að vakna hálf 8, og viti menn, það klikkaði allverulega!

Nive kom til landsins á laugardaginn, er hérna með kærastanum sínum og mömmum þeirra beggja og í gærkveldi hittumst við niðri í bæ og fengum okkur einn öl, rifjuðum upp gamla tíma og ræddum lífið og tilveruna. Svo fengum við okkur kannski einn bjór í viðbót og jafnvel einn til. Svo bara allt í einu var verið að loka og við vorum sko ekki búnar að tala, svo við röltum heim til mín og héldum áfram að tala þar.

Ég hef ekki hitt hana síðan 2002 þegar þessi mynd var tekin og auðvitað var geðveikt gaman að sjá hana. Samt fannst mér ekki eins og ég væri að hitta vinkonu mína í fyrsta skipti í 4 ár, um leið og við hittumst var bara eins og það væri ekkert eðlilegra í heiminum en að sitja á Brennslunni með Nive, og vá hvað ekkert hefur breyst þó að allt hafi breyst, skiljiði?

Þegar við komum heim til mín setti ég Drvie með Bic Runga í, disk sem við Nive rauluðum reglulega lag fyrir lag úti í Noregi og svo Californication sem við hlustuðum á svona grilljón sinnum á rölti okkar um Osló eftir að við uppgötvuðum að við gleymdum báðar vegabréfunum okkar og restin af hópnum var búin að stinga okkur af og fara til London. Árbækur og myndir voru grafnar upp og reyndar komumst við ekkert í gegnum árbækurnar, festumst í myndunum sem er ágætt því þá eigum við hitt eftir.

Vá þvílíka nostalgían og upprifjunin! Og vá hvað maður á að rifja svona upp gamlar minningar stundum, annars kannski týnast þær. Nive rifjaði upp fullt af skemmtilegum hlutum sem ég var búin að gleyma þangað til hún sagði þá og öfugt. Við töluðum líka um ekki svo skemmtilegu mómentin og það komu m.a.s. fram áður óþekktar upplýsingar.

Í dag er ég svo auðvitað dauðþreytt og get ekki neitað því að það er örlítil stærðarinnar þynnka í gangi líka því heima fann ég líka nokkra bjóra og varð svo auðvitað að gefa túristanum að smakka tópas úr flösku við góðar undirtektir og ekki gat ég skilið sjálfa mig útundan. Samt söng ég hástöfum með Bubba alla leið í vinnuna og er búin að vera syngjandi og flautandi í vinnunni líka og vá hvað það er gaman að vera til bara - myndi þakka fyrir frábært kvöld ef Nive bara kynni íslensku og vissi að ég ætti bloggsíðuUllandi.


Ég bara skil þetta ekki!

Eini dagurinn sem ég svaf ekki illa yfir mig í seinustu viku var föstudagurinn en fimmtudagskvöldið var einmitt eina kvöldið sem ég fór ekki snemma að sofa og þá sat ég að ölsötri til 4 um nóttina. Fór svo að sofa um miðnætti í gær og svaf illa yfir mig í dag. Er þetta ekki eitthvað afbrigðilegt? Þarf ég sem sagt að djamma bara öll virk kvöld til að meika það í vinnuna á mannsæmandi tíma á morgnana?

Ástin blómstrar

Jamm, held ég sé orðin ástfangin...ef það er þá hægt að verða ástfangin af einhverjum með því að lesa bók eftir viðkomandi. Er sem sagt búin að dömpa Tiga og farin að plana framtíðina með Andra Snæ aftur. Mikið er það satt sem ég var að ræða fyrir sona korteri að gáfur eru einn mikilvægasti hlutinn af kynþokka. Ekki það að mér finnist Andri Snær ekki bara geðveikt sætur líka....en einhvern veginn verður hann flottari með hverri blaðsíðunni sem ég les í Draumalandinu. Ég er nú ekkert endilega sammála öllu sem ég er búin að lesa en hann skrifar þetta svo skemmtilega. Er nú kannski ekki alveg fyrst með fréttirnar þar sem það hafa margir komið í sjónvarpið, útvarpið, blöðin, eða bara í heimsókn eða símann og talað um hvað hann gerir þetta skemmtilega, en þessi æsifréttabloggflutningur minn á samt alveg rétt á sér því ég hef ekki heyrt neinn segjast vera ástfanginn af honum vegna bókarlesturs. Hmm, maður er nú kannski aðeins kominn á undan sjálfum sér tilfinningalega, en ég væri allavega alveg til í eitt date eða svo. En hann á víst konuFýldur. Ætli það sé þá ekki sniðugast að ég hætti þessari vitleysu og rífi upp stærðfræðibækurnarGráta.


Netóðir íslendingar?

Hahaha...við Íslendingar erum svo miklir plebbar...og samt svo mikil krútt. Veit svo sem ekkert um áreiðanleika þessarar könnunar þegar fréttin var skrifuð en núna er Magni allt í einu kominn í 70% og ég efast ekki um að eftir að fréttin birtist á mbl streymdu ógrynni Íslendinga sem aldrei höfðu heyrt um síðuna áður inn á www.supernovafans.com til að kjósa okkar mann. Skemmtilegt hvernig fjölmiðlar geta haft áhrif á eigin fréttir og það alveg óvart.

Þessi skjótu viðbrögð þjóðarinnar við skoðanakönnun á einhverri síðu sem enginn veit um leiðir mann svo út í pælingar um þættina sjálfa þar sem úrslitin ráðast jú með netkosningu. Ætli við séum svo netóð og stolt af því að fá að vera með að Magni endi bara aldrei í bottom 3? Getur það verið að kosningaþátttaka í Rockstar á Íslandi sé svo góð að restin af heiminum hafi bara ekkert í okkur? Er alls ekki að efast um að það er fullt af útlendingum að kjósa Magna líka og mér finnst hann hafa verið geðveikt góður, en ætli niðurstöðurnar skekkist ekki soldið vegna þess hvað við erum öfgafull þjóð? En samt...rock on magni! Ullandi


mbl.is Magni leiðir netkosningu um næsta söngvara Supernova
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumar sumar sumar

Í gær tók ég bestu ákvörðun sem ég hef tekið í laaaaangan tíma. Var á leiðinni í vinnuna, búin að keyra svona 2 mínútur, þegar ég virti fyrir mér himininn og sneri við á punktinum og tók mér sumarfrí. Og vá hvað það var þess virði....dagurinn var bara geðveikur.

Sleikti sólina uppi á þaki hjá mömmu, úti á svölum hjá ömmu og á svölum Írisar frænku. Fór á línuskauta í fyrsta skipti í sumar ef frá eru talin nokkur skipti sem ég er búin að rúlla fram og til baka heima hjá mér (í riiiisastóru íbúðinni minni). Tapaði líka peningum í póker í sólinni og endaði svo daginn á einhverju rosalegasta Trivial spili sem um getur. Það vannst á lokasprettinum en vááá hvað sumt fólk á bara ekki að vera saman í liði. Það skeði svona skrilljón sinnum að við vorum með svarið um leið en svo tókst mér með einhverri ótrúlegri röksemdafærslu að sannfæra bæði mig og hinn helminginn af liðinu mínu um eitthvað allt annað og miklu vitlausara. Fékk svo góða bíómyndarhugmynd á meðan á þessari lífreynslu stóð að ég var jafnvel að spá í að beila bara á prófinu í ágúst og fara til hollywood...eða kannski bollywood bara. Er samt ekki komin með neitt nema bara hugmynd, vantar m.a.s. söguþráð svo ég get ekki einu sinni byrjað á handritinu strax svo kannski ég ætti að massa þetta próf bara?

Djöfull er gaman að vera til þegar það er svona gott veður....jafnvel þó maður sé lokaður inni á skrifstofu. En það er kannski bara af því að maður getur hætt í fyrri kantinum. Það virðast líka mjög margir hafa ákveðið að herma eftir því sem ég gerði í gær því það er bara næstum enginn hérna. Enda á að vera ólöglegt að hafa svona gott veður á virkum dögum. Vona að helgina verði svona líka því þá verð ég sko uppi á þakinu hennar mömmu með stærðfræðibækurnar í góðum fíling. Fólki er velkomið að koma og trufla mig með frostpinnaáti.


Slímmatur með sinum og Honda vs. Trabant

Eins og við var að búast í þessari vondu viku var maturinn gjörsamlega óætur. Ég kom sem sagt til baka úr mat svöng, óendanlega pirruð og sígarettulaus. En svona út frá vísindalegu útreikningunum mínum sem ég sagði frá áðan hlýt ég að vera komin í betra skap fyrst ég er að blogga aftur. Og jújú mikið rétt...bætti mér nebbla upp slímpastað og slímsalatið og köldu kjötafgangana með sinunum með freistingum frá Frón og það virðist hafa hjálpað til við upprifjunina á því hvernig maður hefur gaman að hlutunum þótt allt sé vonlaust og leiðinglegt þessa dagana. Eftir 15. ágúst þarf ég vonandi ekkert kex til að finnast hlutirnir skemmtilegir því þá verða þeir bara orðnir það í alvörunni.

Er svo að hlusta á performansana úr rockstar á netinu...Magni enn að ýta undir þjóðarstoltið hjá manni sem er auðvitað bara gott mál. Þegar maður horfir á þetta á netinu koma alltaf öðru hvoru svona auglýsingar, og ein þeirra er Honda Fit auglýsing með Trabant-lagi. Fyrst fannst mér bara ótrúlega kúl að Honda væri að nota íslenskt lag í auglýsinguna sína (ekki sama Fit auglýsingin og er sýnd í sjónvarpinu hérna) en svo núna finnst mér eiginlega meira kúl að Honda sé að nota lag með hljómsveit sem heitir Trabant.

Nú eru miðvikudagskvöld sem sagt orðin ennþá betri sjónvarpskvöld en áður...maður þarf eiginlega að vera límdur við skjáEINN frá hálf 9 til 1...ANTM, RS, L word og aftur RS...mjög sorglegt í svona góður veðri.... 


SÍÍÍÍGÓÓÓ!!!!

Hingað til hefur þetta verið einhver ógeðslegasta vika allra tíma. Í morgun svaf ég svo yfir mig því auðvitað er ekki annað við hæfi á miðvikudegi ógeðslegustu viku allra tíma en að vera fastur í vinnunni til 7 um kvöld þegar það er loksins kominn blár himinn. Á leiðinni í vinnuna uppgötvaði ég svo þegar ég ætlaði að fá mér morgunsígarettuna mína að ég hafði skilið pakkann eftir heima. En ég var svo klár eftir að ég gleymdi sígarettum heima seinast að ég var með varabirgðir í vinnunni - einn pakka oní skúffu - svo þetta átti alveg að vera allt í lagi. En nei, ég hef greinilega tekið vinnupakkann með mér heim í misgripum einhvern tíma og er núna í vondu skapi og sígarettulaus.

Svo held ég að ég sé búin að reikna það mjög svo vísindalega út að bloggtíðni á þessari síðu sé nokkuð nákvæmur mælikvarði á hamingjustig síðustjóra á hverjum tíma.


Sjónvarpsfíkn í sumarblíðunni

Fór á raunveruleikasjónvarpsfyllerí í gær....og skemmti mér að sjálfsögðu konunglega. Fannst Magni standa sig vel, betur en margir af keppinautum hans, og eiginlega kom það mér á óvart því þótt hann kunni sko alveg að syngja strákurinn hef ég ekki alveg verið að skilja hvað hann er að gera í þessum hóp, þar sem hann er alveg 100 sinnum meiri hnakki en nokkurn tíma rokkari. En hann er líka búinn að minnka sveitaballataktana til muna frá seinustu viku og er það vel. Fannst Tommy Lee líka helvíti skemmtilegur...hann var greinilega svo high on something að hann var kannski ekkert með það á hreinu hvar hann var. En það gerði þetta auðvitað bara skemmtilegra. Um hvað hefði fólk verið að tala í útvarpinu í gær ef hann hefði ekki sagst elska ho-ið en vanta soldið meira hum. Svo hefur hann greinilega slakað eitthvað á í efnainntöku fyrir þáttinn þar sem úrslitin voru tilkynnt svo sá þáttur var ekki eins fyndinn. Fannst samt mjög kúl að Chris væri sendur heim því hann var svo vibbahrokafullur.

Nokkrum tímum fyrr hoppaði ég hæð mína af gleði þegar Lisa var send heim í ANTM enda er ég búin að vera að bíða eftir því alla seríuna....jesús hvað hún er búin að fara í taugarnar á mér undanfarnar vikur.

Og núna líður mér illa og held ég þurfi eitthvað að endurskoða líf mitt því ég er að blogga um Rock Star og Americas next top model. En ætli þetta sé ekki svipað og þegar ég kom út úr skápnum með Leiðarljós-áhorf mitt fyrir þó nokkrum árum. Ég veit það er sorglegt, en ég hef gaman að þessum óbjóði og ætla því bara að taka þessari skemmtun opnum örmum. Já talandi um Gædó....sá einhverjar 5 mínútur um daginn og langar að vita hvort það sé rétt skilið hjá mér að Reva sé hætt að vera draugur. Ef einhver veit þetta má endilega upplýsa mig í kommenti...skil vel ef sú athugasemd er nafnlausUllandi.


Allt í volli

Er þetta ekki eitthvað djók? Eða er ég að misskilja? Er virkilega verið að bjóða fólki peninga fyrir að drepa sódómista? Ég virðist ekkert ætla að venjast því hvað heimurinn er fucked up staður.

Svo virðist allt vera að fara fjandans til hérna á íslandi líka og mér finnst eins og við séum bara á leið í moldarkofana aftur...að minsnta kosti vorum við einu sinni nútímaþjóðfélag en miðað við fréttir seinustu daga og vikur erum við bara að verða að einhverju bananalýðveldi aftur. Verðbólgan í hámarki, fasteignamarkaðurinn á barmi þess að hrynja og yngri helmingur þjóðarinnar (including me) að fara að sitja uppi með milljóna skuldir umfram eignir, Pólverjar búandi við aðstæður sem væru ekki hundum sæmandi og látnir borga fyrir það himinháar fjárhæðir, businesskallar að kaupa upp lönd og hrella sumarhúsaeigendur á máta sem mér finnst eiga heima í íslendingasögunum, lóðaúthlutanir á höfuðborgarsvæðinu virðast líka virka eftir einhverju forsögulegu klíkuskapskerfi, álver skulu rísa út um allt hvað sem hverjum finnst en stjórnvöld eru nú samt ekki með neina stóriðjustefnu að eigin sögn og þetta er bara allt í volli.

Ef ég bæti svo ofan á þetta eigin tilvistarkreppu sem hefur aðallega með það að gera að ég er búin að sóa seinustu 5 árum af lífi mínu í að reyna að ná í einhverja BS-gráðu í fagi sem ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á  og ég veit ekkert hvað ég vil gera við restina af lífinu finnst mér bara ærin ástæða til að fara að grenja.

Hvernig fer maður að því að laga heiminn og eigið líf?


mbl.is Mótmæli gegn hátíð samkynhneigðra í Jerúsalem
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband